149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er býsna skýrt. Ég fagna því að hv. þingmanni lítist vel á þær tillögur sem koma fram hjá Gylfa sem innlegg í þá umræðu þegar við tökum frumvarpið til skoðunar. Það kemur til kasta þingsins. Ég held að það sé afar skynsamlegt að hafa það til hliðsjónar að fá hér fram sanngjarnar tillögur, í það minnsta, ef niðurstaðan er sú að reiknaður er að einhverju marki húsnæðiskostnaður inn í vísitölu.

Um verðtrygginguna hef ég engu við það að bæta sem hv. þingmaður fór hér vel yfir og er í grunninn sammála hv. þingmanni.

Mig langar hins vegar í seinna andsvari að koma að því sem hv. þingmaður ræddi um í sinni ræðu, sterka stöðu ríkissjóðs og sjálfbærni ríkisfjármála inn í framtíðina. Hann setti það í samhengi við það að standa sterk þegar við mætum áföllum eins og gerðist í hruninu. Þá stóð ríkissjóður sterkt og það bjargaði miklu að vera með skuldlausan ríkissjóð. Þegar rætt er um sjálfbærni inn í framtíðina, fyrir utan að virða skuldareglu og afkomureglu opinberra fjármála, sem er afar sterkt tæki í þessu samhengi, sjálfbærni ríkisfjármála, höfum við sett forgreiðslur á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar, sem er afar mikilvægt, og greiða niður skuldir.

Í þessu samhengi er jafnframt minnst á þjóðarsjóð og nú hefur hv. þingmaður rætt hann. Ég myndi vilja heyra skoðun hv. þingmanns á þjóðarsjóði í þessu samhengi.