149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera alveg ljóst að ég hef ekki lýst neinni sérstakri afstöðu til þeirra hugmynda sem eru kynntar í þeirri greinargerð sem var tekin saman fyrir skemmstu fyrir forsætisráðherra. Það sem ég hef sagt er að fyrir fram hlýtur maður að vilja skoða með opnum og jákvæðum huga það sem lagt er fram en ég get ekki sagt að ég sé sérstaklega hrifinn af því að vera að smápilla í þetta fyrirkomulag, svo stórgallað sem það er í eðli sínu. Það er engin alþjóðleg viðmiðun til um svona húsnæðislið eins og við erum með. Mikil leit hefur staðið yfir og mikið samræmingarstarf á vegum evrópskra hagstofa með þátttöku evrópsku hagstofunnar Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, en engin niðurstaða hefur fengist í þessu efni.

Ég held að það sé fullkomið tilefni til að fá það leitt í ljós hvað þessi húsnæðisliður hefur kostað ríkissjóð á umliðnum árum, skattgreiðendur. Hvað hann er búinn að soga til sín mikið fé sem ella hefði getað nýst í þágu þeirra sem lakast eru settir í okkar samfélagi, í þágu heilbrigðismála, menntamála og annarra mála af því tagi, að ég tali ekki um lögregluna og barnaspítalann.

Ég held að það sé útilokað annað, hafandi fengið svar um að þessi húsnæðisliður lagði 118 milljarða ofan á lán heimilanna vegna íbúðarkaupa á meðan almennar verðbreytingar lögðu 15 milljarða. Það er fullkomin ástæða til að kalla eftir svari við spurningunni: Hver er kostnaður ríkissjóðs, skattgreiðenda, okkar allra, af þessu?