149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lokaorðin, sem hafa verið innblástur minn í þeim spurningum sem komið hafa fram nokkrum sinnum áður: Hvernig nýtum við þá peninga sem við fáum? Hvernig getum við vitað hvernig við nýtum þá þegar við vitum ekki einu sinni fyrir hverju við gefum fjárheimild? Það hefur verið inntakið í því sem ég var að spyrjast fyrir um hérna: Hvernig veit ég hversu mikið hluturinn á að kosta ef mér er ekki sagt það? Mér er bara sagt: Hérna, láttu mig fá 100 milljónir eða eitthvað svoleiðis og ég skal gera það sem ég get við þær. Hvernig getum við metið árangurinn af því þegar við sjáum það ekki fyrir fram hverjar væntingarnar eru þegar við fáum þennan pening?

Eftir samdrátt hrunáranna, hversu langt erum við komin í að vinna upp þann samdrátt? Það hefur verið umræðan að undanförnu, í fjárlögum 2016 og 2017 o.s.frv., að núna höfum við loksins efni á því að fara að vinna upp ákveðna niðurníðslu á heilbrigðiskerfinu og vegunum, sem voru tvímælalaust undirfjármögnuð á samdráttarárunum, hrunárunum. Hversu langt erum við komin á þeirri vegferð? Ég held að þangað til við erum komin á sama stað í viðhaldi á þessum innviðum okkar getum við í rauninni ekki sagt að við séum komin í plús. Það er ekki fyrr en við erum búin að jafna þann samdrátt sem varð.

Það er ýmislegt sem orkar tvímælis í orðum þingmanna um fjárlögin. Það er vissulega rétt. En það er líka ýmislegt sem orkar tvímælis í fjárlögunum sjálfum og fjármálaáætlun, t.d. hvort lækka eigi tekjuskatt um 1% í lægra þrepi eða samsvarandi því. Nú er komið í ljós að hækkun á persónuafslætti er um það bil samsvarandi en ekki sú hækkun sem boðuð var, sem sagt fyrsta skref af fjórum í jöfnum skrefum. Það er bara einn áttundi sem virðist vera núna, þessi eina pizzusneið sem talað var um í gær. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað (Forseti hringir.) annað innan þess skrefs sem vantar augljóslega í fjármálaáætlun.