149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum ekkert vera að flækja þessa umræðu allt of mikið. Við erum í ótrúlega sterkri stöðu. Við erum með einstaka aukningu kaupmáttar á undanförnum árum. Skuldastaðan er betri en við áætluðum bara fyrir nokkrum mánuðum síðan. Við erum komin í firna sterka stöðu. Tal hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um að við skuldum enn þá, það er umræða sem vafalaust tekur engan enda.

En ég minni bara á það af því að hann nefndi sérstaklega kjaramálin. Við höfum t.d. aukið eða hækkað laun opinberra starfsmanna á vinnumarkaði gríðarlega á undanförnum árum. Þess sér sannarlega stað í útgjaldaaukningu ríkissjóðs á hverju ári. Tökum t.d. bara útgjöld þessa árs, líklega eru 17–20 milljarðar eingöngu vegna kjarabóta eða hækkunar vegna kjarasamninga, þ.e. útgjaldaaukning þessa árs, ef ég tek þessar tölur hráar með öllum fyrirvörum sem hægt er að gera í þeim efnum.

Drögum ekki fjöður yfir að við erum komin á góðan stað. Við höfum einstaka og sterka stöðu. Því fylgir mikil ábyrgð að spila úr þeirri stöðu.