149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason flutti athyglisverða ræðu áðan og athyglisvert svar við andsvari hv. þm. Björns Levís Gunnarsson. En það var ekki síst tónninn í ræðu hv. þingmanns sem var mjög athyglisverður. Þetta var reiðilestur um það hvað gengi vel. Ég verð að segja að það að hlusta á hv. þingmann mæra hæstv. fjármálaráðherra fyrir störf hans var einnig mjög athyglisvert. Hann ræddi þann gríðarlega árangur sem náðst hefur í að lækka skuldir ríkissjóðs. Ég skal að sjálfsögðu taka undir að það er góður árangur en hann er ekki eingöngu hæstv. fjármálaráðherra að þakka. Það var í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem skynsamlegar og réttar ákvarðanir voru teknar sem höfðu úrslitaáhrif í þeim efnum. Það er rétt að halda því til haga.

Ég hef áhuga á að fá nánari útskýringu á einu hjá hv. þingmanni. Hann segir að tugir milljóna fari í heilbrigðiskerfið og það sé mjög skynsamleg ráðstöfun. Ég spyr: Er skynsamleg ráðstöfun að eyða megninu af peningunum í steinsteypu við Hringbraut? Telur hv. þingmaður að nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut sé skynsamleg ráðstöfun? Við höfum strax fengið fréttir af hávaða og öðrum óþægindum sem sjúklingar verða fyrir á sjúkrahúsinu. Sporin hræða og það hefur gengið afskaplega erfiðlega að byggja þarna eina litla byggingu sem er sjúkrahótel, það dregist úr hófi fram og farið fram úr öllum áætlunum o.s.frv. Það væri fróðlegt að fá svar við því.