149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bjóst ekki endilega við að veita andsvar en ræða hv. þingmanns vakti hjá mér ákveðna pælingu um þennan leik að tölum sem gaman er að leika. Ég skoða hversu margar þyrlur hefði verið hægt að kaupa o.s.frv. Ég leik þann leik iðulega.

Við leikum okkur hins vegar ekki bara með tölur í þessum sal. Við spilum líka með líf. Ég veit að ég er pínu dramatískur þegar ég segi það, en við spilum með líf hérna. Ákvörðun okkar um tölur í heilbrigðiskerfinu er spurning um líf. Tjöldin í Laugardal eru spurning um líf. 9% tilraun sem var talað um hérna í gær er spurning um líf. Geðheilbrigðismálin eru spurning um líf.

Þar er ákveðinn kostnaður líka sem spilast ekki niður í 26 milljarða í beinum vaxtakostnaði en samt er vaxtakostnaður þar á bak við. Ég vil ekki draga þetta niður í þann samanburð, en mér fannst rétt að vekja athygli á því að aðrir kostnaðarliðir hafa sömu áhrif á samfélagið okkar og vextir af beinum lánum gera með tilliti til fjárlaga. Þetta er leiðinlegur samanburður, það er leiðinlegt að bera saman tölur og fólk, en samanburðurinn er hérna af því að við tökum ákvarðanir um það hvers konar heilbrigðiskerfi við viljum hafa.

Samkvæmt þessu erum við komin í fullfjármagnaða geðheilbrigðisáætlun. Frábært. Hvað hefur það kostað okkur að gera það ekki fyrr? er spurning sem við eigum erfitt með að svara en við getum auðveldlega svarað spurningunni um bein peningalán. Það er eiginlega miður að við höfum ekki betri samanburð þarna á milli.