149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðaskipti við hv. þingmann því að ég veit að henni er annt um ríkiskassann og vill ekki að hér séu of háir skattar og það er virðingarvert, hún er alveg heil í sinni afstöðu hvað það varðar. Ég get alveg tekið undir það að skattar eiga ekkert að vera of háir, þeir eiga bara að vera nægjanlega háir til að standa við það sem við lofum kjósendum okkar. Hversu háir þeir eiga að vera, þar greinir okkur kannski á.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um eitt. Þegar við vinstra megin við miðju köllum eftir auknum ríkisútgjöldum erum við alltaf rukkuð um: Hvar ætlið þið að fá peningana? Ég hef ítrekað nefnt úr þessum ræðustól hvers konar tekjuúrræði eru vannýtt. Ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir það hér. En hv. þingmaður kallar hins vegar líka eftir hagræðingu. Gott og vel. Það má eflaust alltaf hagræða einhvers staðar. En þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvar vill hún eiginlega hagræða? Ég krefst eiginlega svara frá henni þar sem hún er að benda sérstaklega á að hér hafi kerfið bólgnað út að hennar mati. Hvar ætlar hún eiginlega að skera niður eða hagræða, hvernig sem við orðum það? Er það hjá löggæslunni? Er það spítalinn? Er það skólinn? Hjá öryrkjum? Eldri borgurum? Framhaldsskólinn? Eru það samgöngurnar? Hvar má sjá þessa hagræðingu?

Það er sérstaklega áhugavert að setja þetta í samhengi í ljósi þess að hv. þingmaður er einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og ég minntist fyrr í morgun á landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins þar sem einmitt var talað um að skera niður ríkisútgjöld um 300 milljarða, 10% af landsframleiðslunni. Það er ansi blóðugur niðurskurður. Hvar ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að skera niður, finna þessa 300 milljarða? Hvar ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hagræða sem hv. þingmaður ítrekað nefnir að sé svo nauðsynlegt að gera?