149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:40]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar og tek undir það að mér finnst vægast sagt nægjanlega háir skattar hérlendis, enda hefur það sýnt sig ef við horfum á fjárlög síðustu ára að það hefur ekki þurft til þess að efla grunnstoðir samfélagsins sem hv. þingmaður kýs auðvitað að nefna hér sem aðalatriði þess sem ríkið fjármagnar og ég tek undir að eigi að vera á forræði ríkisins. Það hefur ekki þurft að hækka skatta til þess einmitt að efla allar þessar stoðir, koma betur við barnafjölskyldur og láglaunafólk t.d. með barnabótum og fleira. En svo spyr hann mig hvar ég vilji skera niður.

Á bls. 81 er t.d. kafli um betri rekstur. Með aðeins betri rekstri og eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, hagræðingu og tæknivæðingu, sem ríkið virðist oft vera of seint að grípa til, mætti spara hundruð milljóna, bæði þegar það hættir að senda bréfpóst, gerir stærri hugbúnaðarsamninga og gerir þinglýsingar rafrænar og svo mætti áfram telja. Ríkið er bara oft of svifaseint í svo mörgum málum. Þar tel ég mikilvægt að hagræða.

Svo get ég auðvitað nefnt fjölda annarra mála sem ég tel að ríkið þyrfti ekki endilega að sinna sem bitnar þó ekki á þessari grunnþjónustu sem hv. þingmaður nefnir í andsvari sínu. Við erum sammála um hvernig ríkið eigi að fjármagna ákveðna grunnþjónustu. Það þýðir þó ekki að það sé ekki hægt að gera betri samninga. Mönnum hefur orðið tíðrætt um að Áfengisverslun ríkisins kostar ákveðna fjármuni fyrir ríkið. Ég tel óþarfa að Ríkisútvarpið sé jafn stórt og það er. Ég gæti haldið áfram að telja upp.

Mikilvægast er að betri rekstur hins opinbera og enn þá meiri forgangsröðun í þessa grunnþætti sem við höfum verið að forgangsraða í undanfarið mun skila sér (Forseti hringir.) í minna bákni.