149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:44]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar.

Ræða mín fjallaði nú aðallega um að það sem lægri skuldir þýða eru minni vaxtagreiðslur. Tugir milljarða í minni vaxtagreiðslur gera okkur auðvitað kleift að standa mun betur að þeim málum sem við ætlum að sinna. Hvaða mál eru það sem Sjálfstæðisflokkurinn eða ríkisstjórnin, hv. þingmaður spyr reyndar bara um Sjálfstæðisflokkinn, vill að ríkið sjái um? Það eru þessir grunnþættir sem hann nefndi sjálfur í fyrra andsvari, það eru samgöngumál, menntamál, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið fyrir eldri borgara og öryrkja og það eru dómstólar og löggæsla landsins. Það eru þessir grunnþættir þar sem við ætlum að gera vel og einbeitum okkur að forgangsraða í. Aðrir þættir eru ekki jafn mikilvægir, þetta eru grunnþættirnir sem við eigum að forgangsraða í og þar eigum við að gera vel og vanda okkur, sjá hvar við getum gert betur og halda áfram að byggja upp. Það er nákvæmlega það sem þessi fjárlög og síðustu fjárlög hafa verið að gera.

Það sem ég var einungis að benda á í ræðu minni var að það er ekki alltaf þörf á meiri útgjöldum og það heyrist hér í þingsal og í öðruvísi umræðum um fjárlög þó að það heyrist ekki frá hv. þingmanni sem er einn af þeim sem biðja alltaf um meira og meira, meiri útgjöld. Það sem ógnar þeim stöðugleika sem við búum við er einmitt ef við höldum ekki stefnunni og förum út af sporinu. Ég held að það myndi koma verst niður á því fólki sem okkur er öllum svo umhugað um og viljum gera vel við ef stöðugleikinn helst ekki í sama horfi og við höfum haldið honum síðustu ár.