149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að taka það fram í upphafi að þótt við forseti séum kannski ósammála um það þá er ég ánægður að hafa hann sem bakhjarl hér, þótt hann sitji nú ekki í varðhaldi, en vona að hann fái ekki blóðnasir af leiðindum yfir ræðunni.

Fyrst að því sem hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagði. Okkur greinir nefnilega á um ótal aðra hluti en bara hvernig eigi að verja þeim fjármunum sem fara í þessar fjórar, fimm grunnstoðir. Hér hefur komið fram það sjónarmið að við eigum eiginlega að einskorða okkur við það og ekkert annað. Hún nefnir RÚV. Ég myndi vilja nefna menningu og listir og annað slíkt sem er forsenda þess að við getum byggt land sem stenst samkeppni við aðrar þjóðir. Ég held að það væri ofboðsleg skammsýni að fara að keyra á samfélagsgerð sem gerði ekki ráð fyrir neinu öðru en þeim grunnþörfum að geta sofið, borðað og klætt okkur. Í því finnst mér birtast fátækleg og döpur framtíðarsýn fyrir þjóðina.

Það er sama hvort okkur líkar það betur eða verr, við erum að keyra inn í vetur sem verður okkur mjög erfiður. Það eru stórir hópar fólks sem eiga fullt í fangi með að lifa sómasamlegu lífi og gera réttmætar kröfur til launahækkana í vetur. Á hinn bóginn er loftið aðeins að leka úr efnahagsblöðrunni og það er kólnun í efnahagslífinu. Skart fall íslensku krónunnar síðustu daga hringir líka viðvörunarbjöllum. Samkvæmt sumarkönnun Gallups hafa stjórnendur í íslensku efnahagslífi einnig áhyggjur af versnandi aðstæðum á næstu mánuðum.

Ráðherra talaði um í morgun að íslenska krónan hefði haldið uppi góðum lífskjörum í landinu síðustu ár. Krónan er engin forsenda lífskjara. Hún hefur stundum komið okkur til hjálpar og hún hefur stundum komið okkur í bölvuð vandræði. Hún er kannski Loki Laufeyjarson í efnahagsmálum og menn greinir á, en hún skapar ekki stöðugleika. Það gerir allt annar hlutur sem við skulum ræða á eftir. Það er íslenskur almenningur og atvinnulífið sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á núna.

Þegar hæstv. ráðherra talar um að ríkissjóður verði í þeim aðstæðum að finna ákveðið jafnvægi þá er allt í lagi að velta því fyrir sér hver eigi að bera uppi það jafnvægi. Hver ber kostnaðinn af því jafnvægi? Ég held að við þekkjum það allt of vel. Við vitum að lækkun gengisins mun geta haft í för með sér verðbólgu, hærri vexti og það mun leggjast þyngst á launafólk. Í þessu tilfelli það launafólk sem naut góðærisins ekki í sama mæli og mörg okkar og átti fullt í fangi með að halda sjó í blússandi gengi. Þá er örlítil hækkun persónuafsláttar og dálítil aukning barnabóta fljót að fjúka af öðrum ástæðum.

Mér fannst líka athyglisvert að þegar hæstv. fjármálaráðherra kynnti fjárlög á blaðamannafundi og útskýrði þær agnarsmáu aðgerðir sem á að fara í, og eru að mörgu leyti góðar og mér finnst betri leið en flög tekjuskattslækkun, gaf hann líka í skyn að búið væri að þenja svigrúmið til hins ýtrasta, sem þýðir væntanlega að ríkisstjórnin hefur engin spil uppi í erminni.

Í gær talaði hann hins vegar um að maður ætti aldrei að gera áætlanir miðað við bestu mögulegu skilyrði. Nú er ljóst að forsendur sem lágu til grundvallar fjárlögum og fjármálaáætlun a.m.k. eru allt aðrar. Þær gerðu ráð fyrir samfelldu hagvaxtarskeiði í 13 ár og sama krónugengi í þrjú ár. Við erum kannski að fara að horfa á allt aðra hluti.

Í andsvörum í morgun spurði einn hv. þingmaður hæstv. ráðherra hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við ef hér gerðust alvarlegir hlutir í atvinnulífinu. Hann vitnaði í samtal við dóttur sína sem spurði hann: Pabbi, hvað gerist ef við lendum í árekstri? Hann svaraði henni: Við verðum bara að vona að hann verði ekki harður.

Herra forseti. Þetta er fallegt og nærgætið svar þegar talað er til barnsins síns en það er auðvitað ekki ásættanlegt svar til að róa fólk þegar er að kólna í efnahagslífinu og við sjáum fram á harða kjarabaráttu.

Ef maður á að aka á vegum þar sem er raunveruleg hætta á að maður lendi í slysi þá þarf maður að keyra varlega. Það er margbúið að vara við því að hinn fordæmalausi efnahagsvöxtur muni ekki vara að eilífu. Við slíkar aðstæður eiga stjórnvöld að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og flestir þingmenn, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason, að nauðsynlegt var að ráðast í mikla styrkingu innviða. Fyrir því töluðu allir flokkar fyrir síðustu og þarsíðustu kosningar. En mér finnst skorta að við séum öll sammála um að líka þurfi bæta mikið kjör þeirra sem verst hafa það. Við þær aðstæður er aðeins eitt svar, ef það á að lofa hlutunum. Þar kann okkur einfaldlega að greina á.

Samfylkingin hefur alltaf talað mjög skýrt fyrir því að samhliða eyðslu þurfi líka að afla tekna til að halda jafnvægi. Við höfum talað um að ónýtt færi séu til tekjuöflunar. Ég held að við öll hefðum getað lagt aðeins meira af mörkum og mörg sjávarútvegsfyrirtækin hefðu eflaust getað gert það líka. En grundvallarhlutverk okkar núna snýr að því að dreifa byrðum jafnar þar sem meðaltekjufólki og lágtekjufólki er hlíft.

Síðan er að endingu, svo maður haldi áfram með líkingu um akstur, besta leiðin að þræða ekki þröngar og hlykkjóttar götur sem um fer mikil umferð og eru með mörgum blindhæðum heldur velja beinni og öruggari leið og betri bíl. Þess vegna komum við alltaf að þeirri spurningu aftur hvort við verðum ekki að fara að stefna að öruggari gjaldmiðli sem býður upp á meiri fyrirsjáanleika, bæði fyrir fyrirtæki og ekki síður almenning.

Litlu aðgerðirnar, sem þó eru betri en á horfðist í vor, eru of máttlausar og mæta ekki réttmætum kröfum launafólks. Það er ekki svartsýnisraus í mörgum stjórnarandstöðuþingmanni heldur hafa einfaldlega fjölmargir hagsmunaaðilar tjáð sig um fjármálafrumvarpið á síðasta sólarhring. Formenn ýmissa verkalýðshreyfinga hafa gagnrýnt það og talað um að ekki sé gengið nógu langt þegar kemur að stuðningi við barnafjölskyldur og launafólk, metnaðarleysið sé algert þegar kemur að því að tryggja viðunandi lífskjör.

Stúdentaráð Íslands hefur einnig gagnrýnt frumvarpið harðlega og sagt ljóst að ekki eigi að standa við kosningaloforð hvað varðar framlög til háskólanna. Háskólarnir fá í rauninni helmingi minna en lofað var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Svona mætti lengi telja. Manni sýnist líka að framlög til sjúkrahúsþjónustu séu ekki fullnægjandi og það vanti jafnvel talsverða peninga upp á að hægt sé að halda sjó. Löggæslan í landinu fær allt of litla fjármuni. Það er hægt að fara mjög víða um þetta.

Samgönguáætlun er enn vanfjármögnuð. Styrkir til almenningssamgangna hækka einungis um 150 millj. Það er ótrúlega sérkennilegt þegar maður horfir á ágætisáform ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum að sú upphæð skuli ekki vera hærri og að menn skuli ekki leggja fé í borgarlínu, sem eru hvort tveggja aðgerðir sem myndu skila ótrúlega miklum árangri í baráttunni gegn loftslagsógninni.

Ég get farið víðar. Framlög til þróunarsamvinnu eru einungis helmingurinn af því sem sum nágrannaríki leggja í málaflokkinn. Það er ágætt að minna sig á að við erum 11. ríkasta land í heimi. Framlög til útlendingamála lækka um 40 milljónir. Það er af mörgu að taka.

Að lokum stendur uppi, finnst mér, að þótt ýmislegt megi tína til jákvætt í fjárlögunum þá vantar alla framtíðarsýn, stefnufestu og einbeittan vilja til að leggjast á sveif með þeim hópum sem veikast standa í samfélaginu. Það kemur ekki á óvart. Þetta eru tveir gjörólíkir flokkar sem eru að miðla málum og útkoman verður einhver grámi sem engu mun skila fyrir okkur nema rétt til að halda í horfinu.