149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin taki mið af einhverri þjóðhagsspá. Ég er einfaldlega að benda á að þjóðhagsspá á Íslandi hefur hugsanlega bara takmarkaðra forspárgildi en ef um væri að ræða slíka spá víða annars staðar. Krónan getur ýkt sveiflur og verið orsök fyrir ýmsum hlutum. Hún bitnar líka á atvinnugreinum. Við getum talað um nýsköpunarfyrirtæki sem byggja nánast allt sitt á mannauði og horfa á það milli ára að allur hagnaður hverfur og það þarf að fara að segja upp fólki þó að fyrirtækið gangi ágætlega, bara vegna þess að gengið sveiflast.

Ferðaþjónustan, það væri dálítill lúxus ef við hefðum það stóra mynt núna þegar ferðamönnum til landsins fjölgar margfalt, að eina sem við þyrftum að velta fyrir okkur væri að byggja upp innviði fyrir ferðamennina, passa náttúruna og hugsa um slíka hluti, en fá ekki líka sem afleiðingu ofris krónunnar, sem kom almenningi ágætlega tímabundið en setur svo önnur fyrirtæki í vandræði. Þetta getur ekki verið ákjósanlegt.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra á móti: Hefði honum ekki á margan hátt liðið betur ef hann hefði lagt fyrir fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun þar á undan við þær aðstæður að hann byggi við gjaldmiðil sem hann vissi að sveiflaðist töluvert minna a.m.k. en krónan?