149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það varði mestu að gjaldmiðillinn endurspegli ástandið í hagkerfinu, að þegar harðnar á dalnum í hagkerfinu sé eðlilegt að gjaldmiðillinn gefi eftir gagnvart öðrum gjaldmiðlum þar sem ekki árar eins. Þegar uppgangur er, uppsveifla, mikil eftirspurn er eftir því að koma hingað, innstreymi gjaldeyris eins og verið hefur, er eðlilegt að gjaldmiðillinn styrkist. Smám saman verður landið dýrara og það getur haft áhrif, nákvæmlega eins og við sjáum í dag.

Aðalatriðið er að krónan hefur verið í styrkingarfasa á sama tíma og við höfum haft viðskiptajöfnuð. Það var hins vegar ákveðið óheilbrigðismerki, ef maður mætti orða það þannig, að sjá svona sterka krónu þegar viðskiptahallinn var jafn gríðarlegur og var hér í aðdraganda hrunsins. Þá eru undirliggjandi kraftar að verkum sem ekki hafa með hina raunverulegu stöðu efnahagsmála eða styrk efnahagsmála að gera. Þá skapast hætta á því að menn taki út lífskjör á kostnað framtíðarinnar, eins og þá gerðist. Og við þurftum að skila þeim lífskjörum harkalega til baka í hruninu.

Það er þetta samhengi hlutanna sem ég legg áherslu á. Vissulega er mikilvægt að reyna að draga úr sveiflum eftir því sem hægt er. Ég tel að við séum á góðri leið með að fá meira jafnvægi í hagkerfið með því að það eru fleiri stoðir sem bera uppi útflutningsgreinarnar og það er betra samspil í dag en lengi hefur verið á milli opinberra fjármála og peningamálastefnunnar o.s.frv. Það mun hjálpa til við að fá meiri stöðugleika í gjaldmiðilinn og eftir atvikum að fá hér að jafnaði lægri vexti. En það er ekki góð ráðlegging að taka upp gjaldmiðil sem hefur eitthvert virði sem tengist öðrum myntsvæðum, öðrum hagkerfum, og endurspeglar ekki það sem er að gerast hér. Að minnsta kosti verður að ganga að því með opin augun að menn tala um að taka hagsveiflurnar út (Forseti hringir.) í gegnum vinnumarkaðinn.