149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú virðist hæstv. fjármálaráðherra hafa komist að þessari skoðun sem hann var ekki á fyrir 12 árum síðan og væri fróðlegt að vita hvaða bækur hann hefur lesið því til stuðnings. Ég mæli þá með því að ráðherra fari í fyrirlestraferð til Evrópu og kynni kosti þess að vera með lítinn gjaldmiðil sem sveiflast mikið og leggi það til við þessar þjóðir að þær taki aftur upp sínar myntir.

Ég hef þá trú að við eigum eftir að vera í miklu meiri samskiptum við umheiminn. Það er nauðsyn fyrir okkur. Þannig hefur það reyndar alltaf verið þegar við höfum átt meira samstarf við útlönd. Þegar viðskiptafrelsi hefur opnast hefur það gagnast okkur. Við sjáum það líka að stór nýsköpunarfyrirtæki eins og ég nefndi áðan, við getum nefnt CCP, sem hafa talað opinskátt um að það sé erfitt að starfa á Íslandi. Ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á að vera í fremstu röð í þeim breytingum sem eiga sér stað núna með sífelldum tækniframförum verðum við að búa þessum fyrirtækjum betri og stöðugri umgjörð.

Svo skulum við ekki gleyma því að á endanum er það alltaf almenningur í landinu sem borgar brúsann þegar gengið fellur. Þannig hefur það alltaf verið, bæði þegar ráðherrar keyptu sér bíla og felldu gengið handvirkt daginn eftir, en líka núna þegar mikil opin alþjóðleg viðskipti geta haft gríðarleg áhrif á stuttum tíma á fall gjaldmiðilsins. Þá verður það almenningur sem borgar brúsann. Það er ömurlegt núna við þær aðstæður þegar tugir þúsunda manna náðu heldur varla að fóta sig í góðærinu.