149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst þetta með vextina. Ég held að það hafi gegnum tíðina talsvert skort á að við tryggðum að opinber fjármál, þá á ég að sjálfsögðu bæði við ríki og sveitarfélög, toguðu í sömu átt og Seðlabankinn hverju sinni. Ég tel líka að við höfum á köflum ekki haft nægilega skýra mynd af því sem var að gerast á hverjum tíma í hagkerfinu. Ég tel að með betri hagtölum, bættri áætlunargerð, skýrari markmiðum, eins og við höfum sett t.d. í fjármálareglunum, frekari umbótum á regluverki og lögum, eins og við t.d. stefnum að núna varðandi stjórn peningamála í kjölfar skýrslu um þau efni, séum við að færast mjög í rétta átt. Eitt af því sem rætt hefur verið um í því samhengi er hvort menn eigi að horfa til húsnæðisþáttarins við verðbólgumælingar. Ég vísa til umræðu um það á árinu.

Ég tel að ef við vöndum okkur í öllu þessu og förum ekki fram úr okkur í útgjöldum hjá hinu opinbera — og við höfum verið að ræða um hvort við eigum ekki að horfa á fjármál hins opinbera út frá þeim hagrænu áhrifum — ef við förum að gera það í auknum mæli getum við dýpkað umræðuna um það hvort við séum að leggja Seðlabankanum lið við að standa við verðbólguloforðið, loforðið um að gildi peninganna verði nokkuð stöðugt og verðbólgan að jafnaði ekki yfir tveimur og hálfu prósentustigi. Þetta eru allt þættir sem ég tel að get spilað saman til að lækka vexti.

Fyrst menn ræða um vexti vil ég ítreka það sem ég hef áður sagt í dag að vextir eru lágir í dag í sögulegu samhengi og það er vegna þess að við erum að ná árangri. Húsnæðisvextir í dag eru líklega þeir lægstu sem hafa boðist, a.m.k. síðan ég fæddist.