149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Þegar hann segir að við höfum kannski ekki haft nógu skýra mynd af því sem er að gerast í hagkerfinu á hann væntanlega við Seðlabankann, því að ákvarðanir Seðlabankans undanfarin misseri benda til þess að þeir hafi alls ekki haft skýra mynd af því sem er að gerast í hagkerfinu, hvorki inn á við né út á við. Ég get alveg tekið undir það með ráðherra og fagna því.

Ég vil líka fagna því að hann drepur á mál sem ég hafði ekki rænu á að minnast á í ræðu minni, þ.e. húsnæðisþátt í vísitölu. Þar fluttum við Miðflokksmenn þarft og gott mál í vor sem vísað var til ríkisstjórnarinnar. Það væri fengur að því að heyra frá hæstv. ráðherra hvar málið er statt. Er það komið á einhvern rekspöl? Við flytjum þetta mál að sjálfsögðu aftur ef þarf en værum fegnastir ef málið væri komið á þann rekspöl að þess þyrfti ekki. Auðvitað viljum við vinna með ríkisstjórninni, og hæstv. ráðherra fyrst og fremst, í því að ná því markmiði að ná húsnæðisliðnum út. Við sjáum á hverjum einasta degi við hverja einustu mælingu hvað þetta er gríðarlega ranglátt. Seðlabankinn er að reyna að klóra yfir það núna í þessari peningamálastefnufundargerð að það hafi dregið saman með hækkun á húsnæði og öðrum vörum. Þetta er náttúrlega eins og þegar köttur klórar yfir eitthvað í sandkassanum því að allar tölur segja okkur að nú erum við að fara upp í hækkandi verðbólgu, jafnvel 2,7–2,8%. En ef þessi ósköp hefðu ekki verið inni værum við enn í mínus 0, 1, 2, 3, 4, 5%. Það er því mjög brýnt að vinna að þessu og langar mig að spyrja ráðherra hæstv. hvar málið er statt. Mig langar líka til að ánýja spurningar mínar um það hvernig hann hyggst bæta löggæslustéttum og innheimtuembættum peninga svo þau geti unnið sitt þarfa verk og náð þeim markmiðum sem eru í bókinni hér.