149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er unnið úr niðurstöðum skýrslunnar sem var afhent fyrr á árinu. Við höfum verið með hana til umræðu í ráðherranefnd. Það er á þingmálaskrá vetrar að bregðast við skýrslunni. Það er út frá því gengið að á þessum þingvetri verði lagt fram frumvarp um málið frá forsætisráðherra.

Aftur að hinu sem hv. þingmaður ræddi töluvert og ræðir ávallt í þingsal af innsæi og þekkingu. Ég vil nefna sérstaklega að nýlega tókum við ákvörðun um að færa innheimtuna frá tollinum yfir til ríkisskattstjóra. Þá horfum við til þess að það geti verið bæði hagræði og aukin skilvirkni samfara því að álagning og innheimta opinberra gjalda sé á einni og sömu hendinni. Það hefur í för með sér talsverðar breytingar á skipulagi beggja stofnana sem nú er unnið að undir forystu Snorra Olsens, sem er nýr ríkisskattstjóri en fyrrverandi tollstjóri. Við tilkynntum þetta en sögðum um leið að sú vinna hefði leitt til þess að við vildum skoða enn frekar mögulega á frekari sameiningu embættanna. Það skýrist svo eftir vinnu vetrarins hversu langt verður gengið. En það geta verið, kannski ekki alveg auðsóttir en sjálfsagðir hagræðingarmöguleikar sem standa okkur opnir og geta skilað sér í meiri skilvirkni á báðum sviðum. Það eru þá möguleikar af því tagi. Þeir munu til lengri tíma hjálpa til við betri nýtingu fjármuna, betri stjórnun, meiri skilvirkni, samþættingu skyldra verkefna o.s.frv. og allt það held ég að muni bæta bæði innheimtu og þjónustu.