149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo merkilegt með steinsteypuna að fólkið steypti jafnvel húsið sjálft og það eru bundnar í því minningar sem er oft erfitt að yfirgefa. Ég skil alveg að fólk sem byggir sér lífstíðarheimili vilji vera þar fyrir lífstíð. Þetta var t.d. gallinn á auðlegðarskattinum, eignarskattinum, eins og hann var þar sem fólk sem átti miklar eignir sem voru í rauninni voru nákvæmlega þar svo að fólk hefði þak yfir höfuðið, jafnvel þótt eignin væri vissulega of stór, að það var í rauninni ekki þessi persónuafsláttur, að geta átt þak yfir höfuðið, það skiptir ekki miklu máli hversu stórt þakið er þegar allt kemur til alls, að það sé ákveðið gólf á eignarskattinum. Það var augljóslega pínu ósanngjarnt að hlutast til um það sem bjó kannski til vandamál í frekari umræðu um eignarskattinn í kjölfarið.

Annað sem ég vildi fara aðeins í í ræðu hv. þingmanns varðar vaxtagjöld og barnabætur o.fl. Þetta eru nokkrir styrkir, fæðingarstyrkur, barnabætur, vaxtastyrkur, sem tínast til hér og þar. Velflestir er þeir tekjutengdir. Þegar fólk er komið með styrki frá nokkrum stöðum sem eru samtals þó nokkur upphæð og fólk hækkar síðan smá í launum þá skerðast allir styrkirnir frekar hratt. Það er ákveðin kerfislæg gildra, myndi maður kannski vilja kalla það, að ekki borgi sig að hækka í launum. Það er mjög kaldhæðnislegt en í vissum tilvikum er það svo. Það rímar mjög vel við umræðuna um krónu á móti krónu skerðingu hjá öryrkjum þar sem þetta er mjög óljóst og útreiknað hvernig það er.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að horfa á varðandi slík kerfi, t.d. gæti virkað að taka burt vaxtabæturnar til að gera kerfið svolítið einfaldara og fækka skerðingunum þegar fólk hækkar í launum.