149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Það er ekki auðvelt fyrir nýjan þingmann að lesa fjárlagafrumvarpið, verð ég að viðurkenna, alls ekki, taldi mig þó nokkuð talnaglöggan. En þegar ég lít heilt yfir þetta þá furða ég mig mest á því hversu verkefni ríkisins eru eins og ég reyndar vissi gífurlega umfangsmikil og virka flókin í þessu frumvarpi, eðlilega kannski.

Ég spyr mig ýmissa spurninga þegar ég les þetta frumvarp. Við erum 340 þúsund í þessu landi og stundum spyr maður sig að því hversu mikið umfang við þurfum í þessu litla landi okkar. Hversu stórt á umfangið að vera? Er ekki hægt að gera þetta eitthvað einfaldara?

Ég hef unnið í stjórnsýslunni þannig að ég átta mig á því að það er ekki auðvelt, þetta er ekkert auðvelt verkefni, en þegar maður les svona frumvarp þá veltir maður þessu samt fyrir sér. Er ekki hægt að gera þetta einhvern veginn einfaldara? Þetta er líka spurning um hagræðingu, herra forseti, hvernig við gerum þetta. Menn tala um það að hér komi menn upp í púlt og heimti aukin útgjöld til hinna og þessara málaflokka. Það er alveg hárrétt og ég er einn af þeim, þannig að ég er nú sekur að því leytinu til. En er ekki einhverja hagræðingu að finna þarna sem er svo auðveld og auðsæ?

Þarna er alveg ótölulegur fjöldi af nefndum og stofum og sjóðum og allra handa liðum sem ég þekki nú alls ekki allt þótt ég þekki sumt af því. Allt eru þetta afskaplega góð málefni sem þessar stofur og nefndir og sjóðir vinna að, alveg örugglega, þau sem ég þekki til og líka hin eflaust. En ég velti fyrir mér: Er ekki hægt að sameina, samræma, vinna meira saman, er ekki hægt að samþætta þetta? Ég geri mér t.d. fulla grein fyrir því að ef þú setur af stað nefnd þá er yfir henni einhver stjórn og það er einhver skrifstofa, eitthvert húsnæði og hugsanlega einhverjir starfsmenn. Það þarf að prenta og ljósrita og hringja, svara símum og senda bréf hingað og þangað. Er ekki eitthvað hægt að taka þarna til?

Ég ætlaði nú að gera miklu meira áður en ég fór hérna upp í púltið en ég fletti upp þessum sjóðum sem í fjárlagafrumvarpinu eru. Þetta er alls ekki tæmandi talning, þetta er bara það sem ég setti niður á blað fyrir nokkrum mínútum síðan. Ég ætla að lesa þetta, með leyfi forseta:

Jafnréttissjóður Íslands. Lýðheilsusjóður. Eftirlaunasjóður aldraðra. Fræðslusjóður. Sprotasjóður. Grænlandssjóður. Ferðasjóður ÍSÍ. Íþróttasjóður. Afrekssjóður ÍSÍ. Æskulýðssjóður. Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna. Hljóðritunarsjóður tónlistar. Tónlistarsjóður. Bókasafnssjóður höfunda. Myndlistasjóður. Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar. Kvikmyndasjóður. Launasjóður listamanna. Húsfriðunarsjóður. Fornminjasjóður. Safnasjóður.

Allt eflaust hinir bestu sjóðir og bestu stofnanir. Ég held áfram, herra forseti:

Loftslagssjóður. Ofanflóðasjóður. Úrvinnslusjóður. Orkusjóður. Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Rannsóknarsjóður til að auka verðmæti sjávarfangs. Tækniþróunarsjóður. Innviðasjóður. Hafnabótasjóður. Jöfnunarsjóður sókna. Kirkjumálasjóður. Landhelgissjóður Íslands. Rannsóknasjóður. Fjarskiptasjóður. Sjóður til síldarrannsókna. Verkefnasjóður sjávarútvegsins. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Fiskiræktarsjóður. Umhverfissjóður sjókvíaeldis. Bjargráðasjóður.

Þetta eru hátt í 50 sjóðir. Kannski margir þeirra með stjórn og húsnæði og starfsmenn. Er ekki eitthvað hægt að einfalda hér?