149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég stíg hér fram undir lok þessarar umræðu sem hefur verið yfirgripsmikil og á köflum bara skemmtileg. Hér hefur verið skipst á skoðunum um mikilvæg mál og góður grunnur að framhaldinu.

Ég ætla ekki að fara miklu dýpra í efnisatriði máls hér. Ég ætla að leyfa mér að segja kannski frekar örfá orð um formið og segja að á morgun verður farið yfir mál með hverjum og einum ráðherra. Þetta fyrirkomulag er tiltölulega nýtt af nálinni. Ég er aðeins hugsi yfir því að við skulum í raun og veru þurfa að skipuleggja okkur þannig að það rati alveg inn í nóttina, en gott og vel. Það hefur enginn svo sem kvartað mikið yfir því hér að þurfa að vinna langan vinnudag. En ég held að það væri eitthvað hægt að gera til þess að fá aðeins líflegri og kvikari umræðu um þessi helstu mál.

Við eigum það stundum til hérna í þinginu að efna til mjög langrar umræðu jafnvel eins og hér á við í alveg heilan dag og ætla síðan aftur að reyna að kveikja líf og fjör í umræðunni næsta dag. Ég er ekki með lausn á þessu, en það væri mögulega hægt að blanda þessu meira saman, framsögu fyrir fjárlagafrumvarpinu og innkomu einstakra fagráðherra, sem gæti lífgað aðeins upp á umræðuna. Ekki það að hún hafi verið eitthvað ómöguleg. Hér hafa allir flokkar haft tækifæri til að koma sjónarmiðum að. Það hefur gefið góða breidd í þessa 1. umr. sem þó er ekki að ljúka hér í dag.

Síðan langar mig til þess að geta þess undir lok umræðunnar að í starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir því að 3. umr. um fjárlög fari fram 22. nóvember, sem yrði þá, ef minnið er ekki að bregðast mér, nýtt met í því hversu hratt við afgreiðum fjárlögin, eða kannski ekki endilega hversu hratt heldur a.m.k. hversu snemma við værum að afgreiða fjárlögin.

Stundum hefur umræðan dregist alveg fram undir jól og jafnvel fram yfir jól, en mig langar bara að geta þess sérstaklega að það er mjög mikils virði að það skuli hafa tekist samstaða um þetta, sem ég vona að hafi verið grunnurinn að þessari tillögu, samstaða í forsætisnefnd, um að reyna að ljúka fjárlögunum þriðju vikuna í nóvember. Það skiptir mjög miklu í margvíslegu tilliti, vegna þess að það er svo margt sem hangir á afgreiðslu fjárlaganna og varðar áramót. Við í fjármálaráðuneytinu munum gera allt sem við getum til þess að styðja við það starf sem hefst eftir þessa umræðu í þingnefndinni svo að tryggja megi eðlilegan framgang málsins. En ég veit að það verður mikið at í nefndinni og mikil vinna sem þarf að eiga sér stað til þess að þetta sé raunhæft. Mig langar bara að geta þess sérstaklega. Ég held að þetta sé bæði metnaðarfullt og mikilvægt. Það væri mikil framför ef okkur tækist að gera þetta.

Svo sýnist mér að sé best fyrir mig að fara að hætta að tala núna, en þó ætla ég að reyna að kreista það fram hér úr hálsinum á mér sem er að bregðast mér, að mér finnst sem sagt umræðan um fjárlögin og framsetningin á öllu sem varðar opinber fjármál vera að batna með hverju árinu. Vonandi heldur það áfram enn um hríð. Við erum enn þá aðeins að læra á þetta nýja regluverk.