149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við höfum margoft rætt þetta á undanförnum árum. Þann tíma sem ég hef verið í fjármálaráðuneytinu hefur þetta oft borið á góma. Eitt er víst að það er ekki hægt að ljúka fjárlagavinnunni og prenta fjárlagafrumvarpið miklu fyrr. Í þessu tilviki þá kom fjárlagafrumvarpið úr prentvélunum bara undir kvöld daginn fyrir framlagningu, fyrstu eintökin. En ef við myndum miða við aðeins breytta tímaröð þá væri eitthvað hægt að flýta þessu.

Ég sé í sjálfu sér ekkert sérstakt því til fyrirstöðu að fjárlagafrumvarpið yrði gert opinbert áður en það væri lagt fram á Alþingi. Ég held að það væri talsvert með því unnið, menn kæmu betur undirbúnir. Ég þekki þetta bæði sem fjárlaganefndarmaður og úr stjórn og stjórnarandstöðu, bæði sem ráðherra og þingmaður, að það er til mikils ætlast að taka við frumvarpinu beint úr prentvélinni og fara síðan í umræðu sem á að vera eitthvað á dýptina. Þannig að ég a.m.k. get lýst því yfir að ég er alveg reiðubúinn að reyna að gera breytingu á þessu.

Ég hef á undanförnum árum aðeins verið að reyna að kynna mér það hvernig þetta gerist annars staðar. Mér skilst að í Danmörku birti menn frumvarpið talsvert löngu fyrir þingsetningu sem er þá hugsað til þess að gefa stjórnarandstöðunni og öðrum tækifæri til þess að mynda sér einhverja skoðun á því. En síðan sat ég með norska fjármálaráðherranum og helstu embættismönnum hans fyrr í vikunni. Hún var hér í heimsókn hjá okkur á mánudaginn. Þá komst ég að því að þau sýna engum fjárlagafrumvarpið fyrr en það er lagt fram á þinginu, ekki einu sinni stjórnarandstöðunni eða (Forseti hringir.) fjölmiðlum. Þannig að það er sinn hátturinn hafður á þessu annars staðar.