149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við leggjum nú fram annað fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar og það fyrsta sem lagt er fram með hæfilegum aðdraganda, ef við getum orðað það þannig, í því umhverfi að staða efnahagsmála á Íslandi er sterk. Mikill vöxtur hefur átt sér stað í efnahagslífinu undanfarin ár. Óreglulegar tekjur sem ríkið hefur fengið, til að mynda í tilefni af svokölluðum stöðugleikaframlögum, hafa gert ríkissjóði kleift að greiða niður skuldir og styrkt stöðu hans verulega með þeim afleiðingum að skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 88 milljarða á undanförnum 12 mánuðum og vaxtagjöld ríkissjóðs hafa þar af leiðandi lækkað verulega. Hrein vaxtagjöld verða um 26 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011, sem er mikill áfangi í endurreisn efnahagskerfisins og uppbyggingu þess eftir hrun.

Við horfum hins vegar fram á ýmsar áskoranir. Það sem þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á er að ráðast í uppbyggingu samfélagslegra innviða sem ekki hefur fylgt efnahagsbatanum. Þetta fjárlagafrumvarp er annar áfangi, getum við sagt, á þeirri leið, eftir þann fyrsta sem kom hér í fyrra. Fjármálaáætlunin leggur líka línurnar um þá uppbyggingu. Þar horfum við til uppbyggingar í ýmsum málaflokkum sem við höfum held ég öll hér í þessum sal skynjað sterkar kröfur almennings um að ráðist verði í.

Þar vildi ég sérstaklega nefna heilbrigðismálin sem verið hafa efst á dagskrá landsmanna í ítrekuðum skoðanakönnunum þar sem við sjáum annars vegar stór uppbyggingarverkefni þegar kemur að fjárfestingum, og þá vitna ég sérstaklega í nýjan Landspítala, en líka í rekstur heilbrigðiskerfisins. Þar eru tvö mál sem ég vil nefna sérstaklega, annars vegar lækkandi greiðsluþátttöku sjúklinga sem áfram er gert ráð fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi, sem er mjög mikilvæg jöfnunaraðgerð og mikilvæg til þess að við komum Íslandi í samanburðarhæft form til að mynda við önnur Norðurlönd þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi hefur verið hærri en annars staðar á Norðurlöndum.

Síðan vil ég nefna sérstaklega geðheilbrigðismálin sem ég tel að séu eitt stóra verkefnið fram undan fyrir okkur öll. Þar hafa verið stigin fyrstu skrefin í að auka aðgengi til að mynda að sálfræðingum um land allt, sem er mikilvægt, og ekki síst fyrir ungt fólk. Þar tel ég þó að við þurfum að horfa til stefnumótunar til lengri tíma því að þetta tel ég vera eina af stóru áskorununum fyrir okkar heilbrigðiskerfi, þ.e. hvernig við ætlum koma í veg fyrir, líka, að geðheilbrigðismálin verði það vandamál sem við teljum þau vera orðin í dag. Við sjáum til að mynda aðvaranir frá landlækni um að andleg heilsa ungs fólks, svo ég vitni í rannsókn landlæknis frá árinu 2017, sé á niðurleið.

Ég talaði um kostnað sjúklinga. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga hér að þær ráðstafanir sem lagðar eru til í skatta- og bótamálum, þó að vafalaust finnist einhverjum ekki nægjanlega langt gengið, miða allar að því að styrkja stöðu tekjulágra og lægri millitekjuhópa. Þar munar kannski mestu um aukningu barnabóta til tekjulágra barnafjölskyldna. Ég veit að ýmsir í þessum sal hafa talað fyrir því. Það er fagnaðarefni að við horfum núna á að staða þessara fjölskyldna er að batna verulega með viðbót í barnabótakerfið.

Ég vil líka nefna það sem hefur kannski ekki verið mikið rætt, að efri mörkin í skattkerfinu eru núna fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin. Þessi mörk hafa færst til með ólíkum hætti, þ.e. efri mörkin hafa færst til með launavísitölu en neðri mörkin með neysluvísitölu. Það hefur verið gagnrýnt verulega. Það er mjög mikilvægt að við séum með samræmi þarna á milli. Og síðan er persónuafsláttur hækkaður um 1% umfram vísitölu neysluverðs. Allt er þetta til jöfnunar.

Ég hlýt síðan að nefna umhverfismálin. Þar höfum við séð straumhvörf í fjárveitingum. Það kann að vera að einhverjum þyki þetta ekki vera stóra forgangsmálið en það er nú svo að ef við förum ekki að fjárfesta í loftslagsmálum verður hreinlega of seint að gera eitthvað í þeim. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að við förum að bregðast við núna til þess að við náum að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins um minni losun. Við vitum að ef við náum því ekki er það ekki bara alvarlegt mál á heimsvísu heldur er það líka risastórt efnahagsmál. Við höfum undirgengist þessar skuldbindingar og munum greiða það dýru verði ef við uppfyllum þær ekki. Síðan er það auðvitað hin stóra umhverfislega ábyrgð.

Hvað varðar málaflokka forsætisráðuneytisins mun ég ekki hafa mörg orð um það. Ég vænti að þingmenn nýti tækifæri sitt hér til að spyrja út í málaflokka forsætisráðuneytisins og þær breytingar sem þar eru gerðar á. Ég mun svara þeim spurningum með gleði og eftir bestu getu.