149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við hæstv. forsætisráðherra erum bæði aðdáendur franska hagfræðingsins Pikettys. Hann segir stefna í að eign vestrænna þjóða verði álíka ójafnt skipt milli íbúa landanna og á 18. og 19. öld. Við séum á leið til miðalda. Frá millistéttarsamfélagi að auðræðissamfélagi. Fáir auðmenn munu ráða för, við stefnum í átt þar sem lýðræðið víkur fyrir auðræðinu.

Ísland er auðvitað engin undantekning þegar kemur að vaxandi eignaójöfnuði. Fimm ríkustu prósentin eiga jafn mikið og hin 95%, árið 2016 jókst eigið fé 90% landsmanna um 209 milljarða, sem sagt 1 millj. kr. á 200 þúsund fjölskyldur á meðan hver og ein fjölskylda ríkasta prósentsins fékk 25 milljarða.

Við þekkjum líka stöðu almennings þegar harðnar á dalnum, gengið fellur, verðbólgan eykst, vextir hækka, almenningi blæðir. Efsta lagið finnur svo möguleika til að verja sig fyrir þessu með einum með öðrum hætti, m.a. að fara með peningana sína til Panama eða annarra landa. Í góðærinu finna auðmenn líka leiðir til þess að hagnast. Auðurinn safnast á færri hendur og almenningur þarf alltaf að bera uppi stöðugleikann. Og nú í vetur með því að stilla launakröfum sínum í hóf. Þetta er ekki fallegt, hæstv. forsætisráðherra.

Eftir lestur fjárlagafrumvarpsins finnst mér ekkert vera gert til að minnka eignaójöfnuð. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvernig henni líði með þennan skort á þessum hluta í fjárlagafrumvarpinu, hvort hún sé búin að leggja Piketty-bókina sína á hilluna eða hvernig hún ætli að bregðast við í þessari ríkisstjórn, hvaða aðgerðum við getum búist við, hvaða leiðir hún muni fara til að ná þessum jöfnuði í betra horf.