149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á mikilvægu efni. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði og við erum sammála um, að þegar við horfum og skoðum jöfnuð á Íslandi og í alþjóðlegu sambandi vitum við að tekjujöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, þó að við hér inni í þessum sal höfum kannski aðeins mismunandi skoðanir á því hversu mikill hann eigi að vera.

Til þess að bregðast við því að skapa aukinn jöfnuð þegar kemur að tekjum er mjög mikilvægt að sú endurskoðun sem stendur yfir á samspili bóta- og skattkerfa nýtist ekki síst þeim tekjulægri. Ég tel þó, þótt hv. þingmaður segi að ekkert sé gert þegar kemur að eignaójöfnuði, að mikilvægt sé að halda því til haga að bæði það sem er gert varðandi barnabætur, persónuafslátt og breytinguna á efra þrepinu, allt er þetta í þá átt að stuðla að auknum jöfnuði þegar kemur að tekjunum.

Þá komum við að eignunum. Hv. þingmaður segir að hér sé ekkert gert í því máli og það er alveg rétt að í þessu fjárlagafrumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á fjármagnstekjuskatti, enda var hann hækkaður um 10% í síðasta fjárlagafrumvarpi, úr 20% í 22%. Sú vinna stendur hins vegar yfir að meta þennan skattstofn til samanburðar við önnur ríki, hvort við metum það að þetta sé nægjanlegt því að lengi hefur verið rifist um það hvort þetta sé sambærileg skattlagning og sambærilegur skattstofn. Þeirri vinnu er ekki lokið.

Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þingmanns á því, af því að lækkunin á fjármagnstekjuskatti um 2 milljarða frá áætluninni sem birtist í fjármálaáætluninni skýrist að mestum leyti af þeirri tilhögun, að það er ekki vegna þess að skatturinn hafi ekki hækkað og sé ekki innheimtur, að árið 2016 voru inni í framreikningsgrunni tekjur ríkisins vegna stöðugleikaframlaga, en svo er ekki lengur. Þannig að það er í raun og veru bókhaldslegt atriði sem þar ræður för, þó að fjármagnstekjuskatturinn sé sveiflukenndur skattstofn. Þetta skýrist líka að hluta til af því að framteljendum þar hefur fækkað.

Hv. þingmaður nefnir skattaskjól og skattsvik. Við samþykktum á vormánuðum frumvarp til þess einmitt að herða enn frekar róðurinn gegn skattsvikum. Ég mun gjarnan vilja ræða það frekar ef ég fæ kost á því í seinni ræðu.