149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:43]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta. Það er gott að ráðherra gengst við því að í þessari ríkisstjórn er ekkert verið að gera svo mikið í þessum hluta málsins. Það er auðvitað ekki gott að hún boði ekki frekari aðgerðir með einhverjum konkret hætti.

Ef við skoðum bara fjármagnstekjuskattinn, hvernig hann birtist í OECD-löndunum, er Ísland meðal neðstu þjóðanna. Við erum á milli Sviss og Spánar eftir að við hækkuðum skattinn upp í 22%. Ég get ekki sætt mig við það að menn ætli að flækja þetta í einhver ár með því að vinna og gera skýrslur sem birtast svo eftir tvö ár þar sem menn eru að skoða hvort þetta sé með sambærilegum hætti og annars staðar.

Hér er alveg klárt mál að menn eru að raka til sín peningum. Um þúsund manns eiga t.d. 98% af öllu eigin fé í fyrirtækjum á Íslandi sem eru í eigu einstaklinga og við þurfum ekkert annað en setja fingurinn upp í loftið og horfa í kringum okkur til að sjá hvernig fólk er að græða hér á meðan aðrir gera það ekki.

Ég vil spyrja beinlínis hvort ráðherra muni í næstu kosningum tala aftur fyrir enn hærri fjármagnstekjuskatti, hvort hún muni ásamt mér tala fyrir auðlegðarskatti á langríkasta fólkið. Hvort hún geti hugsað sér að við setjum hátekjuþrep á fólk eins og okkur sem erum með ofurlaun og getum þá lækkað lægsta tekjuþrepið á móti. Og hvort hún sjái ekki fyrir sér að það sé eðlilegt um leið og við verjum auðvitað veikustu fyrirtækin í sjávarútvegi að við getum alla vega náð böndum á það að ríkustu fyrirtækin séu ekki að borga sér marga tugi milljarða á nokkrum árum.