149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta voru margar spurningar hjá hv. þingmanni. Ég mun gera mitt besta til að svara þeim. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að auknir fjármunir og bætt regluverk og fleiri upplýsingaskiptasamningar til að koma í veg fyrir skattsvik er allt eitthvað sem er á dagskrá og hefur þegar verið ráðist í í tíð ríkisstjórnarinnar.

Svo vil ég andmæla því að hv. þingmaður skilji orð mín þannig að ekki sé verið að gera neitt í fjármagnstekjuskattinum. Ég fór yfir það áðan að hann var hækkaður um 10% fyrir minna en ári að tillögu þessarar ríkisstjórnar. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé ekki nóg að setja bara fingurinn upp í loftið og taka vindinn, heldur eigum við einmitt að ráðast í þessa greiningu á samanburði skattstofna. Það er nákvæmlega það sem ég sagði fyrir síðustu kosningar. Við höfum séð ótrúlegan fjölda skattbreytinga á undanförnum tíu árum. Ég boðaði það að mér fyndist mikilvægt að við hefðum vandaðri undirbúning að skattkerfisbreytingum og aukið samráð um þær. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera.

Ég lít hins vegar svo á að eignaójöfnuður sé það sem við þurfum að vera mest meðvituð um. Þó að það sé líka mikilvægt að horfa til teknanna er það þar sem ójöfnuðurinn birtist, í eignastöðunni.

Hv. þingmaður nefndi ýmsa skattstofna, veiðigjöld og fleira. Ég vil segja að hv. þingmaður er þó væntanlega sammála þeirri breytingu sem komið var á á kjörtímabilinu 2009–2013 þar sem farið var að afkomutengja veiðigjöldin. Þáverandi stjórnarandstaða var raunar á móti því að setja slíka afkomutengingu inn í þennan gjaldstofn. Ég er þeirrar skoðunar að hún eigi að vera inni, að veiðigjöldin eigi að vera afkomutengd, en það þýðir að sjálfsögðu, alveg eins og skattheimta er í raun og veru afkomutengd, að veiðigjöldin verða afkomutengd. Við getum svo rætt nákvæmlega hvernig við viljum útfæra gjaldstofninn. Sjávarútvegsráðherra boðar frumvarp um það. Við verðum líka að horfast í augu við það að ef við föllumst á þessa forsendu munu veiðigjöld hækka (Forseti hringir.) og lækka. Þau hafa gert það svo sannarlega ef við skoðum bara nokkur ár aftur í tímann.