149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir áttum gott samtal í fjárlaganefnd í vor þar sem hún útskýrði fyrir mér að í forsetaúrskurði um ábyrgðarsvið forsætisráðherra er talað um samskipti stjórnvalda við Alþingi. Grundvöllurinn fyrir því að þetta fjárlagafrumvarp vinnist faglega í þinginu er að upplýsingar frá stjórnvöldum séu þannig að við getum unnið með þær, t.d. upplýsingar um kjaramál sem án efa þýða breytingar á fjárlagafrumvarpinu í þinginu og ætti þá að þýða breytingar.

Varðandi upplýsingar sem við í þinginu fáum beint frá ráðherra eða í gegnum yfirlýsingar þeirra í ríkisstjórninni þurfum við að geta fengið skýr svör við spurningum okkar fljótt ef við eigum að vinna vinnuna okkar faglega. Ef við teljum upplýsingar ekki nógu góðar eða jafnvel villandi er gríðarlega mikilvægt fyrir traustið í samfélaginu og gott samstarf okkar á þinginu við stjórnvöld að geta fengið skýr og skjót svör. Það er á ábyrgðarsviði forsætisráðherra ef aðrir ráðherrar sinna því ekki.

Við ættum ekki að bíða þar til upplýsingagjöfin verður vandamál og vantraust fer að grassera og krafa myndast um að kalla ráðherra fyrir nefndir þingsins til að fá skýr svör, sem þrír af nýjum nefndarmönnum geta gert og við höfum beitt í meira mæli. Á endanum myndi þurfa að kalla forsætisráðherra fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ef ráðherrarnir sinntu ekki sínu. Í stað þess að fara í þann óþarfa dans vil ég freista þess að biðja forsætisráðherra um 15 mínútur til að hefja strax samtal um upplýsingagjöf stjórnvalda til Alþingis. Rammi þeirrar umræðu er að þingmenn fái upplýsingar sem þeir sannarlega þurfa til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, lögbundnum skyldum. Það er ekki þannig í dag og það verður að laga.

Ég spyr því hvort forsætisráðherra eigi fyrir mig 15 mínútur á eftir eða fyrri partinn í næstu viku til að hefja samtalið.