149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða spurningu. Hann spyr mig fyrst og fremst hvort ég eigi handa honum 15 mínútur. Ég á alltaf 15 mínútur handa hv. þingmanni, ég veit ekki hvort hann vill hafa þær í þessum sal eða persónulegar, en (Gripið fram í.) þær á ég til.

Hvað varðar upplýsingagjöfina vil ég segja, af því að hv. þingmaður segir að það sé á ábyrgðarsviði forsætisráðherra á hverjum tíma að aðrir ráðherrar gefi upplýsingar, að við verðum að halda því til haga að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald og lög okkar um ráðherraábyrgð gera ráð fyrir því að hver ráðherra beri ábyrgð á málaflokki sínum en forsætisráðherra hafi samhæfingarhlutverk. Ég verð því að líta svo á að hæstv. ráðherrar séu hver og einn ábyrgur fyrir þeim upplýsingum sem þeir gefa og þær séu að sjálfsögðu gefnar eftir bestu vitund. En það er hlutverk forsætisráðherra að hafa forystu um að ramminn sé þannig að þetta sé sem best, sem skýrast.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni, kröfur okkar um upplýsingagjöf hafa gjörbreyst með samfélagsbreytingum. Það er allt annar veruleiki en var fyrir tíu árum, eins og ég kom raunar aðeins að í stefnuræðu minni. Við þurfum að laga okkur að þeim veruleika og m.a. þess vegna óskaði ég eftir skýrslu frá starfshópi um eflingu trausts. Ein af lykiltillögunum er að Stjórnarráðið sníði sér stefnu um upplýsingagjöf. Það er verkefni sem við munum ráðast í. Endurskoðun upplýsingalaga er hafin. Hluti af þeirri endurskoðun verður, eða ég mun gera það að tillögu minni, að Alþingi og dómstólar muni fara undir upplýsingalög, sem þeir heyra ekki undir í dag, og að við lítum til Noregs sem hefur þótt með hvað framsæknustu upplýsingalöggjöfina. Mín trú er sú að þrátt fyrir framfarir sem hafa orðið í upplýsingagjöf og upplýsingalögum eigum við verk að vinna í þeim efnum til þess að við getum talist vera að gera eins og mér sýnist vera best gert. Þar hef ég sérstaklega litið til Noregs.