149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er margt ánægjulegt í fjárlagafrumvarpinu og óvenjufátt sem stuðar þótt alltaf sé eitthvað sem gerir það. Auðvitað þurfum við að ræða það nánar á eftir og þetta er ekki eins og það verður best á kosið, en forgangsröðunin virðist endurspegla þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur gefið sér. Gott og vel, við munum fara betur í það.

Þegar ég horfi á fjárlagafrumvarpið á þessu ári, eins og í fyrra og hittiðfyrra, er alltaf einn þáttur sem stendur upp úr sem stór óvissuþáttur sem veldur áhyggjum og það er hreinlega íslenska krónan. Hún er einn af stærstu óvissuþáttunum okkar. Það virðist sem nokkurra prósenta flökt á krónunni geti grafið nokkuð mikið undan ríkisfjármálunum, eins og áður. Ég velti því fyrir mér: Eigum við ekki að fara að hætta þessu? Viðhald krónunnar í núverandi mynd er einhvers konar þjóðrembingslegur masókismi. Við gerum okkur ekki neina greiða með því. Þetta er risastórt dæmi um að með því að gera hlutina allt öðruvísi en allir aðrir gerum við sjálfum okkur erfitt fyrir.

Þar sem hæstv. forsætisráðherra fer með málefni Seðlabanka Íslands langar mig að vita hvort hún hyggist stíga einhver skref til að draga úr óstöðugleika og óáreiðanleika íslensku krónunnar og treysti þar með bæði ríkisfjármálin og hagkerfið í heild. Þetta er mál sem kemur reglulega upp. Það er búið að vinna ýmsar greiningar og nýjustu greiningarnar virðast benda til þess að ekki sé mikill skilningur á eðli þeirrar verðtryggingar sem er mikið til staðar í kerfinu okkar, en það eru stórir gallar á henni. Ég hef ekki enn séð neina greiningu sem er í takt við raunveruleikann. Getum við fengið aðeins betri gjaldmiðil eða alla vega betra fyrirkomulag?