149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:56]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að sjá áherslur í nýju fjárlagafrumvarpi þar sem áherslan er greinilega á nauðsynlegum áformum um uppbyggingu innviða. Nú er lag því að spár gera ráð fyrir minni hagvexti og því gott tækifæri fyrir hið opinbera að koma með myndarlega innspýtingu.

Áfram er haldið á þeirri braut að greiða niður skuldir og létta vaxtabyrði. Við sjáum merki um kröftuga sókn í styrkingu grunnkerfa í heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngukerfum um leið og haldið er í þau nauðsynlegu markmið að viðhalda efnahagslegum ávinningi sem náðst hefur í að viðhalda kaupmáttaraukningu sem náðst hefur með skynsamlegri hagstjórn. Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra til áframhaldandi sóknar en jafnframt að haldið sé áfram á þeirri braut að hér raskist ekki efnahagslegur stöðugleiki svo áfram verði haldið á þeirri braut uppbyggingar sem við erum klárlega á. Styrk efnahagsstjórn og áframhaldandi niðurgreiðsla skulda er leiðin til að halda þeim stöðugleika sem hér ríkir nú.

Við komum sterk út úr flestum mælikvörðum sem við mælum okkur á. Það er jákvætt og gefur kraft til áframhaldandi verka og svigrúm til að huga að þeim sem veikast standa og halda utan um þann hóp. Í því fjárlagafrumvarpi sem hér ræðir um sjáum við margar aðgerðir til jöfnuðar. Við getum talað um barnabætur og breytingar á vaxtabótum. Það er stóraukið framlag inn í húsnæðismálin, þar erum við að tala um 25,5 milljarða. Það er verið að vinna að skoðun á samspili bótakerfa og skattkerfa. Hér er meiri tekjujöfnuður en víða þekkist.

Núna stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hversu langt við viljum ganga í því. Er þetta kannski spurningin um hversu afgerandi jöfnuður þurfi að vera til að sátt skapist í þessu samfélagi? Þetta er stór spurning sem mig langar til að varpa hérna fram.