149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[09:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er stór spurning hversu jafnt þurfi að vera til að við getum talað um jöfnuð. Þótt við teljumst með mikinn tekjujöfnuð í alþjóðlegu samhengi vitum við líka að við erum með hópa sem eru með lág laun og eiga erfitt með að ná endum saman. Ég get rætt þar örorkulífeyrisþega, ég get nefnt hluta aldraðra og ég get nefnt þá sem eru á lægstu laununum í þessu samfélagi, þá sem eru á lægstu töxtum sem eru 300.000 kr. í ár þar sem verulega erfitt er að draga fram lífið á slíkum tekjum.

Þess vegna segi ég að það sé mikilvægt sem við erum að gera þegar kemur að til að mynda barnabótum og persónuafslætti. Það gagnast hlutfallslega best þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Eins og samflokksmaður hv. þingmanns, hæstv. félagsmálaráðherra, benti á í umræðum þurfum við síðan að taka heildstæða umræðu um launaþróun í þessu samfélagi. Mikið hefur verið rætt um launaákvarðanir æðstu embættismanna og það er mikilvægt að við ræðum það líka í samhengi við launaákvarðanir sem tengjast forstjórum opinberra fyrirtækja en líka forstjórum á almennum markaði.

Þetta er stór og mikil umræða sem við þurfum að eiga í þessum sal. Þrátt fyrir að eins og ég segi tekjujöfnuður sé mikill í alþjóðlegu samhengi upplifum við að það er ekki mikil sátt um launaþróunina í samfélaginu. Það er alvarlegt því að við erum að fara inn í kjarasamninga þar sem skiptir miklu máli að við náum saman um ákveðna þætti. Hvað geta stjórnvöld gert? Kjarasamningar eru á almennum markaði. Þar hef ég talað fyrir því að stjórnvöld geti liðkað fyrir með því að huga sérstaklega að tekjulægstu hópunum í því sem gert er í skattamálum og bótamálum. Húsnæðismálin skipta máli en líka ákveðin réttlætismál þegar kemur að vinnuumhverfi þeirra hópa sem ég talaði um hér áðan, lægst launaða fólksins í samfélaginu sem vinnur oft í umhverfi þar sem við sjáum félagsleg undirboð og umhverfi (Forseti hringir.) sem er í raun og veru alls ekki í lagi. Þar getum við gert betur.