149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er mikið rætt um tekjujöfnuð. Ég ætla að segja að ég er um margt mjög ánægð með fjárlagafrumvarpið sem liggur fyrir núna. Það er greinilega vilji til sóknar í innviðauppbyggingu, sérstaklega þegar við lítum til heilbrigðismála hvað varðar Landspítala – háskólasjúkrahús og þann vettvang.

Hæstv. forsætisráðherra minntist í upphafi ræðu sinnar á andlega erfiðleika ungs fólks og aukinn vilja til sjálfsvíga. Hins vegar er aldrei talað um hvers vegna þessi þróun er að verða í samfélaginu. Hvers vegna eru börnin okkar svona vansæl? Hvers vegna voru tæplega 30 einstaklingar dánir eftir mitt ár vegna ofneyslu fíknilyfja, ópíóíða, morfínsskyldra lyfja? Hvað er í stöðunni núna? Það er verið að loka göngudeild SÁÁ á Akureyri, það kostar 19 millj. kr. Jú, það á að setja 25 millj. kr. í að sporna við þeirri vá sem felst í því að börnin okkar, unga fólkið okkar, er með þessar miklu sjálfsvígshugsanir. 25 milljónir, hugsið ykkur, þetta er ekki einu sinni fyrir lélegustu gerð af kjallaraíbúð í Reykjavík í dag. En það á að heita nóg.

Ég segi: Er ekki forgangsröðunin svolítið dapurleg þegar við horfum upp á staðreyndirnar sem tala sínu máli? Hvað er til ráða? Eigum við að sætta okkur við þetta, hæstv. forsætisráðherra? Megum við kannski eiga von á því að í meðförum á fjárlagafrumvarpinu, þegar við förum lengra inn í haustið, gefum við pínulítið í og tökum alvarlega þá stöðu sem við horfumst í augu við í dag?