149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Fyrst vil ég segja að mér fannst rösklega gert hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að stíga fram með 25 millj. kr. framlag í aðgerðaáætlun gegn sjálfsvígum. Það er ekki eina framlagið til geðheilbrigðismála eða andlegrar heilsu. Ég nefndi geðheilbrigðismálin sérstaklega því að þau vega þungt í fjárlagafrumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir 650 millj. kr. til heilsugæslunnar til að fylgja því eftir sem Alþingi samþykkti í geðheilbrigðisáætlun til fjögurra ára fyrir nokkrum misserum. Þetta er nefnilega stórmál og við þurfum að ræða það, ekki bara út frá viðbrögðum heilbrigðiskerfisins við þessari andlegu vanlíðan, heldur þurfum við líka að velta fyrir okkur hvað við getum gert til að koma í veg fyrir þessa andlegu vanlíðan. Ég tel að við getum og eigum að ræða forvarnir og lýðheilsu í miklu meira mæli á vettvangi þingsins og hvernig við getum búið okkar unga fólki sterkt samfélagslegt umhverfi, t.d. í skólunum. Það var til að mynda stórmál í þeirri námskrá sem var samþykkt árið 2011 að velferð ungmenna væri beinlínis hluti af hlutverkum leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þetta eru stór mál.

Ég vil segja um heilbrigðismálin af því að hv. þingmaður nefnir líka aðra þætti þar að þar er svo sannarlega verið að auka í. Ég nefndi kostnað sjúklinga. Þar erum við búin að sjá núna nýtt samkomulag við tannlækna vegna tannlæknakostnaðar aldraðra og öryrkja. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur hug á því að halda áfram í þeirri vinnu til að draga enn úr þessum kostnaði sem hefur verið mjög íþyngjandi og dregið úr því að þessir hópar hafi sótt sér þá þjónustu sem þeir þurfa.

Að sjálfsögðu vegur bygging Landspítala þungt, eins og hv. þingmaður nefndi, en eigi að síður er líka verið að verja sérstökum fjármunum í mönnun á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Þar er líka horft (Forseti hringir.) til heilbrigðisstofnana úti um land því að heilbrigðisþjónustan getur ekki bara verið á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Það er líka stórmál að tryggja betri heilbrigðisþjónustu úti um land.