149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Ég hlýt þó að þurfa að skýra þessa stöðu aðeins. Í fjármálaáætlun er talað um 14 milljarða svigrúm til lækkunar á tekjuskatti einstaklinga. Í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum nú eru þær aðgerðir hins vegar lagðar til, í ætt við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tengist endurskoðun kjarasamninga í vor, að fjármunum verði að þessu sinni varið í hækkun barnabóta, hækkun persónuafsláttar eins og ég fór yfir áðan og sömuleiðis lækkun tryggingagjalds. Það eru annars vegar aðgerðir sem við teljum að skipti máli fyrir tekjulægsta fólkið í samfélaginu og hins vegar til að auka svigrúm atvinnulífsins inn í komandi kjarasamninga, ekki síst lítilla og meðalstórra fyrirtækja því að tryggingagjaldslækkunin kemur þeim best.

Hér erum við þannig ekki að lækka tekjuskattinn þó að svigrúmið sem við gerum ráð fyrir í fjármálaáætlun samsvari 1% lækkun á lægra þrepi tekjuskatts.

Síðan vil ég segja um lækkun bankaskatts, sem er heldur ekki til umræðu á þessu ári en gert ráð fyrir í fjármálaáætlun, að við þurfum líka að greina, og sú vinna stendur yfir, að það eru vísbendingar um að kostnaður í innlenda bankakerfinu okkar sé meiri en í bankakerfum annars staðar á Norðurlöndum. Og hver greiðir kostnaðinn af því? Er það ekki væntanlega almenningur í gegnum hærri vexti en annars staðar á Norðurlöndum?

Þess vegna höfum við óskað eftir því að sú nefnd sem á að skila til okkar hvítbók um fjármálakerfið, sem við ræðum vonandi hér fyrir jólin, á að skila af sér í nóvember ef allt gengur eftir, komi með greiningu á því til að mynda hvort lækkun bankaskatts gæti skipt máli til að lækka vexti fyrir almenning í landinu. Það er líka risastórt lífskjaramál ef kostnaður í bankakerfinu er hluti af þeim ástæðum að vextir eru hér hærri en annars staðar. Það er þó örugglega ekki eina ástæðan því að við gerum mjög ríka kröfu um sterkt eiginfjárhlutfall í íslenskum bönkum. Það er stefna sem ég tel að hafi skipt okkur mjög miklu máli hvað varðar fjármálastöðugleika. Þetta þurfum við allt að hafa undir þegar við ræðum þetta.

Þetta vil ég einfaldlega setja í þetta samhengi vegna orða hv. þingmanns.