149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athugasemd um skort á ráðdeild. Ég get þó ekki tekið undir hana að öllu leyti.

Það sem við sjáum er að vaxtagjöld hafa lækkað stórkostlega vegna þess að áherslan hefur verið lögð á að niðurgreiða skuldir. Það gerði síðasta ríkisstjórn líka og þarsíðasta. Það má segja að þessi þróun hafi staðið allt frá hruni, hér hefur markvisst verið unnið að því að lækka vaxtagjöld ríkissjóðs sem náðu ákveðnu hámarki á árunum eftir hrun vegna þess að allar þær ríkisstjórnir sem hafa setið frá hruni hafa verið mjög einbeittar í því að reisa við efnahagslífið.

Það sem hefur hins vegar skort á að mínu viti er að efnahagsleg hagsæld, sem við höfum átt bæði vegna skynsamlegra aðgerða, sem hefur verið fjallað mikið um á alþjóðavettvangi, en líka vegna vaxtar í ferðaþjónustu og annars vaxtar í öðrum útflutningsgreinum, hafi skilað sér inn í þessa samfélagslegu uppbyggingu. Við verðum að horfa til þess sem hæstv. fjármálaráðherra benti ítrekað á, að við erum kannski ekki endilega að sjá hlutfallslegan vöxt útgjalda þegar við horfum á hann sem hlutfall af þjóðartekjum. Hins vegar er auðvitað vöxtur í útgjöldum vegna þess að kakan hefur stækkað. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra.

Ég tel hins vegar að verið sé að beita mjög skarpri forgangsröðun í því hvað við erum að gera. Ég nefndi þær jöfnunaraðgerðir sem ég tel að felist í fjárlagafrumvarpinu. Ég tel líka af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega heilbrigðismálin, og mér finnst gott að við fáum tækifæri til að ræða þau aðeins þó að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér síðar í dag, að þar stendur einmitt yfir mótun heilbrigðisstefnu. Þar hefur skort á að við nýtum skattfé með eins skipulegum hætti og við gætum gert. Ég þekki algerlega sambærileg dæmi frá tíma mínum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem skiptir einmitt svo miklu að þegar við erum t.d. að kaupa af þjónustuaðilum að það sé mjög skýrt hver þörfin sé, að hún sé skilgreind af ríkinu, hver þörfin sé fyrir kaup á þjónustu, að það séu skýr gæðaviðmið þegar slík þjónusta er keypt. (Forseti hringir.) Ég tel að unnið hafi verið mikið verk á sínum tíma í menntamálaráðuneytinu þegar kom að samningum við einkaaðila, því að hv. þingmaður vísaði til þess, um ákveðna menntun, að það væri í mjög (Forseti hringir.) skýrum ramma. Ég held að það ætti bara að vera fagnaðarefni fyrir okkur öll að við séum að nýta almannafé með skynsamlegum hætti.