149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ríkisstjórnin er alltaf að stæra sig af árangri sem hefur alltaf verið endurtekinn, þ.e. ef við horfum til hagsögu síðastliðinna þriggja áratuga til dæmis, og þó að lengra væri aftur litið, ríkisstjórnir hafa alltaf greitt niður skuldir við þessar kringumstæður, myndarlega. Það voru greiddar niður skuldir mjög myndarlega á árunum 1995–2000. Greiddar voru niður skuldir mjög myndarlega á árunum 2003–2007. En einhverra hluta vegna verða þær alltaf til aftur, því að óstjórnin í ríkisfjármálunum var líka alger á sömu tímabilum og útgjaldaaukningin mikil og útgjaldaaukningin nú er enn meiri, hún er fordæmalaus í þessu samhengi.

Það leiðir dálítið hugann að því sem hefur verið alger skortur á í íslensku samfélagi, efnahagsstefna stjórnvalda. Ekki bara þessarar ríkisstjórnar, þetta hefur einkennt ríkisstjórnir undanfarna áratugi.

Kostnaðurinn af því er hátt vaxtastig. Kostnaðurinn af því er óstöðug króna, gjaldmiðill. Kostnaðurinn af því er há verðbólga. Allt bitnar þetta á endanum hvað mest einmitt á tekjulægstu einstaklingunum. Það er þetta fólk sem verður harðast úti í þessum miklu sveiflum.

Nú boðar hæstv. forsætisráðherra frumvörp um Seðlabankann. Niðurstaða peningastefnunefndarinnar frá því í vor var alveg skýr, þar voru lagðar fram 11 tillögur um mögulegar úrbætur á núverandi peningastefnu í trausti þess að hægt væri að vinna eftir leikreglunum. Á sama tíma og ríkisstjórn boðar þessar breytingar, að koma með þær inn í þingið, þverbrýtur hún þessar sömu leikreglur sem er alltaf kallað eftir að unnið sé eftir. Útgjaldaaukningin hefur aldrei verið jafn mikil. Það hefur aldrei jafn myndarlega verið farið út af sporinu í efnahagsstjórn og nú er verið að gera og búið að halda áfram með í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta hefur aldrei gengið upp hjá okkur í hagstjórninni og ég hef enga trú á því að nein breyting sé á því núna. Það er alveg rétt að hagkerfið stendur að vissu leyti traustar í fæturna en fyrir áratug, það er rétt að við höfum fengið nýja atvinnugrein sem heitir ferðaþjónusta, en það sést líka mjög berlega hvaða áhrif þetta efnahagslega ójafnvægi sem við erum í í dag, hátt raungengi, mikil þensla, hefur á þá sömu atvinnugrein. Við erum að mylja (Forseti hringir.) undan þeirri atvinnugrein sem var undirstaða efnahagsuppgangs okkar á undanförnum fimm árum. Við höfum gert þetta áður. Og ætlum greinilega að gera það aftur.