149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um hagsögu undanfarinna 30 ára. Ég ætla bara að benda hv. þingmanni á að það hefur orðið gerbreyting á því hvernig við stöndum að skipulagningu opinberra útgjalda. Sú gerbreyting hefur orðið á undanförnum tíu árum, allt frá hruni. Þar sem ólíkar ríkisstjórnir hafa komið að málum, m.a. með lagarammanum um opinber fjármál og það sem við vorum öll sammála um hér inni, þótt við værum ekki nákvæmlega sammála um þær reiknireglur sem settar eru inn í 7. gr. laganna, vorum við öll sammála um að nú þyrfti að bæta áætlanagerð ríkisins.

Nú leggjum við fram fjármálaáætlun með tilteknum mælanlegum markmiðum og þetta er gerbreyting á því hvernig við skipuleggjum ríkisútgjöld. Hv. þingmaður var auðvitað ekki hér þegar þessi lög voru samþykkt en þetta hefur gerbreytt því hvernig ríkisútgjöld eru skilgreind.

Ársskýrslur ráðuneyta voru birtar í gær þar sem má fara yfir hvernig nýting fjármuna hefur farið fram. Ég tel að við höfum verið í miklu ferli með það að vinna miklu betur að skipulagningu ríkisútgjalda. (Gripið fram í.) Þetta er raunveruleg ráðdeild og árangur og ég vil vitna til þess sömuleiðis að mjög mikilvægt er hins vegar að ríkið setji sér einmitt skýr markmið, greini þarfir áður en peningum er eytt.

Ég nefndi dæmi úr menntamálaráðuneytinu frá fyrri tíð sem skiluðu raunverulegum árangri í því máli og umbreyttu gæðaeftirliti og gæðastarfi háskólanna, markvissri fjárfestingu í skapandi greinum, rannsóknum og nýsköpun sem eru að skila sér núna í vaxandi hugverkageira. Þannig að hv. þingmaður ætti kannski að íhuga það betur áður en hann sakar þá sem hér stendur um að hafa ekki sýnt ráðdeild og framsýni í meðferð almannafjár. Nákvæmlega sama verkefni blasir við í heilbrigðismálunum og öðrum málaflokkum, þar sem skiptir máli að setja stefnu og fjárfesta í raunverulegum efnahagslegum málum.

Þessi ríkisstjórn hefur sett það á sína dagskrá að hún ætlar að fjárfesta meira í nýsköpun og þekkingariðnaði. Af hverju ætlar hún að gera það? Það er risastórt efnahagsmál. Það er risastórt efnahagsmál og við skjótum fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið. Það er raunveruleg efnahagsstefna (Forseti hringir.) fyrir lítið hagkerfi sem þarf á fjölbreyttum stoðum að halda og það sjáum við beinlínis á tölum dagsins í dag að hefur skipt máli.