149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:24]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa yfirferð og tek undir að með þessu frumvarpi lítur út fyrir að við séum í góðum málum með ríkisbúskapinn. En mig langar til að ympra á því sem kom fram í sambandi við umhverfismálin og framlög til þeirra mála, um það sem er í gangi hjá okkur. Ég hef fylgst svolítið vel með þessu vegna þess að ég er seinþreyttur í þessu, eða tregur í taumi, ef má segja sem svo. Mér hefur fundist stefnan í þessum málum, að mæta þessari CO2-holskeflu, svolítið fálmkennd því að við erum ekki komin með heildarmyndina að sjálfsögðu. Í fyrsta lagi eru teknir fyrst fyrir bílarnir en svo þegar maður sér skífurit er uppgufun frá framræslu jarða jafnvel 72% en bílarnir þar 4%. Finnst mér það svolítið óábyrgt að fara í svona aðgerð án þess að vera með heildarmyndina á hreinu. En mér er þá sagt að við verðum einhvers staðar að byrja. Ég get alveg verið sammála því og ætla ekki að gera lítið úr því að ástandið sé versnandi. En ég tek líka eftir því, af því að við erum að tala um heilsufar ungs fólks, að það hefur áhyggjur af þessu vegna þess að það er verið að segja því að við verðum að afhenda því jörðina eins og við tókum við henni. Þau verða líka að fá að vita (Forseti hringir.) við hverju þau taka. Við megum ekki hræða þau of mikið í þessari umræðu.