149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka hér upp loftslagsmálin. Mér þykir vænt um að fá tækifæri til að ræða þau því að eins og ég sagði áðan held ég að þetta sé eitt stærsta verkefni sem við höfum með höndum, þó að við munum ekki sjá árangurinn á þessu kjörtímabili. Hv. þingmaður nefnir hér mikilvægan þátt sem er einmitt verið að taka á með þeirri áætlun sem við kynntum á mánudaginn, þ.e. að stór hluti þessarar áætlunar er einmitt endurheimt votlendis, landgræðsla og skógrækt, til þess ætluð að koma í veg fyrir losun frá landi en líka til þess að binda hreinlega meira kolefni. Þar sé ég fram á að við munum ekki bara vinna með fagstofnunum á þessu sviði heldur getum vonandi virkjað bændur um land allt í þetta verkefni með okkur. Ég vil sérstaklega halda því til haga að sauðfjárbændur hafa stigið fram og tekið ákveðið frumkvæði í þessari umræðu og lýst þeirri skoðun að bændur eigi að vera lykilaðilar í þessu stóra verkefni.

Hv. þingmaður nefnir að bílarnir séu kannski ekki stór hluti af þessu, en við þurfum auðvitað að huga að þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem heyrir undir landsbókhald okkar. Þetta er dálítið sérkennileg mynd þar sem flugsamgöngur og stóriðja eru í alþjóðlegu losunarbókhaldi en svo er annað losunarbókhald sem við festum við landið. Þar vega bílarnir þungt. Við töldum þetta vera góðan fyrsta áfanga til að takast á við það að draga úr bruna olíu sem losar gróðurhúsalofttegundir. Þarna geta stjórnvöld skipt verulegu máli bara með uppbyggingu innviða en um leið sjáum við þá tilhneigingu að 20% til að mynda af nýjum heimilisbílum á Íslandi eru bílar sem ganga ekki fyrir bensíni og dísli. Það eru loftslagsvænir bílar. Tilhneigingin er greinilega í þessa átt.

Hv. þingmaður segir að hann sé tregur í taumi, sem ég er nú ekki viss um að hann sé, en það er eðlilegt að spyrja sig spurninga um þessi mál. Við sjáum fram á bæði að framleiðslukostnaður rafbílanna muni fara niður á við á næstu árum og að rekstrarkostnaður þeirra, þrátt fyrir að fólk borgi ýmis gjöld til að (Forseti hringir.) halda uppi vegakerfi landsins, verður miklu minni. Þetta gæti líka orðið stórt efnahagslegt umbótamál fyrir fjölskyldurnar í landinu.