149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:29]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég geri í stuttu máli grein fyrir helstu atriðum frumvarps til fjárlaga ársins 2019 hvað varðar þau fjögur málefnasvið sem heyra undir mig sem ráðherra að öllu leyti eða að hluta.

Sem fyrr er það ferðaþjónustan sem tekur til sín mest af því svigrúmi útgjaldaaukningar sem fellur til á þeim málefnasviðum. Það sama var uppi á teningnum í fjárlögum yfirstandandi árs. Það er svo sem ósköp eðlilegt því að við erum enn að elta gífurlegan vöxt, þó að hægt hafi á honum, undanfarinna ára til að ná betur utan um málefni greinarinnar.

Útgjaldaramminn hækkar um næstum 10% frá síðustu fjárlögum, sem er auðvitað umtalsvert. Við styrkjum í frumvarpinu Ferðamálastofu til að gera henni kleift að sinna nýjum verkefnum sem henni voru falin með lögum frá því í vor. Þau nýju verkefni eru aðallega á sviði rannsókna og gagnaöflunar sem öllum ber saman um að nauðsynlegt sé að auka og bæta.

Á meðal annarra verkefna sem við fjármögnum eru Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, öryggisverkefnið Safe Travel sem Landsbjörg vinnur að mestu, salernisaðstaða við þjóðvegi landsins og tímabundið átak í eftirliti með skammtímaleigu á íbúðum til að framfylgja lögum og reglum sem gilda um slíka leigu. Stærsti einstaki útgjaldaliður málefnasviðsins, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, dregst saman á milli ára en það ber að skoða í samhengi við eflingu landsáætlunar á vegum umhverfisráðuneytisins um uppbyggingu innviða til að vernda náttúru og menningarminjar fyrir álagi af völdum ferðamennsku.

Við hæstv. umhverfisráðherra kynntum í sameiningu fyrr á árinu stórfellt átak í innviðauppbyggingu sem framkvæmt verður með tveimur verkfærum, Framkvæmdasjóðnum og landsáætluninni. Fer vel á því að þau séu kynnt saman, enda eru þau náskyld þótt áherslur og gildissvið séu ekki hin sömu. Útgjaldasvigrúm málefnasviðsins, nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, eykst lítið eitt frá síðustu fjárlögum. Stærstu fréttirnar hvað varðar nýsköpun sjást þó ekki í tölum næsta árs því að þær varða stórfellda hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, sem mun að vísu gilda strax á næsta ári um verkefni sem unnin verða 2019, sem sagt hjá fyrirtækjunum, en áhrifin á ríkissjóð koma ekki fram fyrr en árið þar á eftir, þ.e. 2020.

Ríkisstjórnin boðaði í stjórnarsáttmála að þakið yrði afnumið og þarna verður fyrsta skrefið stigið. Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir nýsköpunarfyrirtæki og verulega eflingu á samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að starfsumhverfi slíkra fyrirtækja. Að því sögðu er rétt að skýra í stórum dráttum frá lækkun sem verður í útgjaldasvigrúmi málaflokksins. Ofmat í áætlunum Nýsköpunarmiðstöðvar um sértekjur til stofnunarinnar er leiðrétt um tæpar 170 milljónir sem felur að sjálfsögðu hvorki í sér að framlög úr ríkissjóði skerðist né heldur að stofnunin hafi minna til ráðstöfunar en áður. Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar lækka um 130 milljónir, rúmlega 100 milljónir falla niður vegna þess að þjálfunaraðstoð til kísilversins á Bakka er lokið, liðlega 100 milljónir sem teknar voru frá ferðaþjónustu á yfirstandandi ári fara nú aftur yfir á það málefnasvið og tæplega 70 milljónir skýrast af því að þriggja ára átaki í innviðum fyrir rafbíla er lokið, en þá komum við inn á aðgerðaáætlun sem nú er fram undan hjá umhverfisráðherra og ríkisstjórninni.

Þá er rétt að minna á að átaki til atvinnusköpunar sem hefur staðið óslitið frá árinu 1996 og hefur haft tæpar 70 milljónir á ári til ráðstöfunar hefur nýlega verið slitið, enda hefur Tækniþróunarsjóður að mestu ef ekki öllu leyti tekið yfir hlutverk þess.

Ég hef sagt það áður og ítreka að málaflokkurinn snýst ekki eingöngu um útgjöld. Við erum t.d. að hefja metnaðarfulla vinnu með fulltrúum allra þingflokka við að móta nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Það verður eitt af okkar mikilvægustu verkefnum þótt það kosti ekki stórkostlega fjármuni. Það sama má segja um orkumálefni. Mörg af okkar mikilvægustu verkefnum þar varða stefnumótun og þróun á nýjum leiðum og lausnum á meðan stærstur hluti útgjaldanna er beintengdur við lögbundin verkefni. Fyrst ber að nefna vinnu við langtímaorkustefnu með aðkomu allra þingflokka en auk þess eru fjölmörg viðfangsefni til meðferðar, svo sem hvernig tryggja megi orkuöryggi á heildsölumarkaði, athugun á hagkvæmni jarðstrengja, gjaldskrármál raforkudreifingar og þrífösun og orkuöryggi einstakra landshluta.

Engin stakkaskipti verða í fjárveitingum til markaðseftirlits en þar eru þó einnig mjög mikilvæg verkefni fram undan. Ég vil sérstaklega nefna samstarf við OECD um samkeppnismat atvinnugreina sem miðar að því að tryggja að lög og reglur feli ekki í sér óþarfa reglubyrði eða hindranir á samkeppni og í öðru lagi verkefni um einföldun regluverks þar sem góð greining hefur þegar farið fram sem hægt er að byggja næstu skref á.

Virðulegur forseti. Ég hlakka til að eiga samtal við þingheim um alla þá mikilvægu málaflokka sem hefur verið stiklað á stóru um.