149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:34]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fyrri ræðum er margt áhugavert í þessum fjárlögum og mjög margt sem snýr að hæstv. ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra enda víðfeðmur málaflokkur, eða málaflokkar til þess að hafa það rétt. Það er margt jákvætt þarna, en auðvitað eins og alltaf er annað ekki eins jákvætt.

Hæstv. forsætisráðherra hefur talað um mikilvægi nýsköpunar nú síðast áðan og lagði töluverða áherslu á fjórðu iðnbyltinguna í stefnuræðu sinni og mikilvægi þess að bregðast hratt við henni til að ná ákveðnu forskoti. Sömuleiðis hafa aðilar í atvinnulífinu, svo sem Samtök iðnaðarins, kallað nokkuð sterklega eftir að ríkið styðji betur við nýsköpun, enda segir í skýrslu þeirra um samkeppnishæfni Íslands, með leyfi forseta:

„Með nýsköpun er hugmyndum breytt í verðmæti og um leið skapast forskot í samkeppni, innan lands og utan.“

En því miður virðist kristallast í þessu frumvarpi að þetta er engin nýsköpunarstjórn. Þrátt fyrir að mikið sé talað um nýsköpun og skrifuð inn verðug markmið eru fjárframlög til málaflokks ráðherra nýsköpunarmála skorin niður um tæp 9% eins og hæstv. ráðherra kom sjálf inn á áðan. Auðvitað eru einhverjar skýringar á því, en ég trúi því varla að hæstv. ráðherra sé sérstaklega ánægð með þennan niðurskurð til málaflokksins. Að auki, þrátt fyrir að það sé umtalsverð aukning til vísinda- og samkeppnissjóða í rannsóknum, er þar skorið niður líka í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Hefði ekki frekar verið tækifæri í þessu fjárlagafrumvarpi og ástæða til að gefa myndarlega í?

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér hún fyrir sér að ná markmiðum þeim sem sett eru fram í málaflokknum og standa undir þeim miklu væntingum sem gerðar eru um aukna nýsköpun og fjölgun einkaleyfa í landinu?