149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Líkt og ég rakti í stuttu máli í ræðu minni eru góðar og gildar skýringar á þessari lækkun, t.d. tæpar 170 milljónir sem er ofmetin tekjuáætlun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, það var einungis leiðrétting. Þetta er stofnun sem hefur aldrei fengið þessar tekjur og þær hafa aldrei verið til ráðstöfunar þannig að það er ekki niðurskurður heldur leiðrétting á ofáætlun í væntingum stofnunarinnar um sínar sértekjur. Það er alveg skýrt.

Rúmar 100 milljónir eru vegna niðurfellingar þjálfunaraðstoðar á Bakka. Ég sé ekki eftir því og finnst fínt að því sé lokið. Svo erum við með tæpar 70 milljónir varðandi innviðauppbyggingu í rafbílum en við munum áfram, og það er stefnt að því í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, byggja upp innviði fyrir rafbíla, en það mun í framhaldinu koma af öðrum stað og Orkusjóði væntanlega falið að útfæra það og vinna.

Ég finn fyrir væntingum og sérstaklega frá þeim sem í þessum geira starfa, sem eru mjög víða í samfélaginu. Ég trúi því að við munum standa undir þeim væntingum. Nýsköpunarstefnan er auðvitað algjört lykilatriði. Þar ætlum við að leyfa okkur að horfa á hlutina upp á nýtt, horfa algjörlega á kerfið eins og það er og skoða hver leiðarljósin eru, hver eru markmiðin og hafa þá kjark til þess að breyta því sem þarf að breyta.

Svo má ekki gleyma hækkun endurgreiðslunnar sem er í rauninni það sem allir þessir aðilar setja efst á lista hjá sér, að fá þessa endurgreiðslu fyrir rannsóknir og þróun. Það mun taka gildi hjá þeim fyrir þeirra vinnu árið 2019 þrátt fyrir að áhrifin komi ekki fram hjá ríkissjóði fyrr en árið 2020. Þetta er algjört lykilatriði.

Við þá hækkun og nýsköpunarstefnuna, sem á að ljúka núna í vor og munu þá væntanlega sjást ákveðnar tillögur og breytingar í næstu fjárlögum, bind ég mjög miklar vonir.