149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:38]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru mikil tækifæri til vaxtar, ekki síst með frekari virkjun hugvits og nýsköpunar. Í kaflanum um nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar er talað um þrjú markmið og fimm aðgerðir til þess að styðja við þróun atvinnulífs á grundvelli nýsköpunarstarfs. Þau eru mjög góð og gild eins og ég nefndi áðan og aðgerðirnar sömuleiðis þó að ég persónulega hefði mögulega viljað fara einhverjar aðrar leiðir og horfa víðar.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er einmitt talað í einni aðgerðinni um nýsköpunarstefnuna og gerð hennar. Þar er m.a. verið að horfa á endurskoðað umhverfi nýsköpunar, stuðningskerfi nýsköpunar, áhrif þekkingargreina, framþróun atvinnugreina o.s.frv. Vinna er hafin eins og hæstv. ráðherra kom inn á og miðað við að henni ljúki einmitt á árinu 2019.

Mig langar því til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Sér hún fyrir sér miklar breytingar á stoðkerfi nýsköpunar og atvinnulífs með nýrri nýsköpunarstefnu? Væri ekki eðlilegt að gera ráð fyrir einhverjum kostnaði vegna þess? Það er alltaf einhver kostnaður þegar verið er að gera breytingar sem skila sér síðan vonandi í auknum tekjum.

Þá langar mig einnig að spyrja, af því að ég á hér eftir smátíma, um framlög til Tækniþróunarsjóðs. Þau eru dregin saman um 45 millj. kr. eða tæp 2%, sem skýtur sömuleiðis nokkuð skökku við, miðað við allt talið um stuðning við nýsköpun. Aðgerð tvö er einmitt að meta árangurinn af starfsemi Tækniþróunarsjóðs og móta aukið hlutverk hans. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér aukið hlutverk Tækniþróunarsjóðs á sama tíma og framlögin eru skorin niður? Sömuleiðis hefur sjóðurinn sjálfur bent á og vakið athygli á hversu fáar umsóknir berast utan höfuðborgarsvæðisins. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að reyna að bregðast við því?