149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:40]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég segi það bara aftur að ég er ekki ósátt við þá fjármuni sem fara í nýsköpunarmál. Ég hef trú á því að við munum geta unnið stefnuna þannig að við séum að fara í ákveðnar kerfisbreytingar sem leyfir okkur að sækja fram án þess að það muni kosta aukafjármuni. Þess fyrir utan ef það koma fram ákveðnar tillögur sem kunna að kalla á aukið fjármagn er það eitthvað sem mun birtast í mögulega fjármálaáætlun eða í framhaldi af því hér á þingi um það hvernig við förum með fjármuni skattgreiðenda.

Hluti af því sem þarf að hugsa og er hluti af vinnu við nýsköpunarstefnuna er t.d. spurningin: Er þetta of flókið? Getum við haft þetta einfaldara? Er aðgengi að erlendum sérfræðingum nægilega mikið? Er of mikið vesen fyrir þá að koma hingað? Getum við létt undir með því öllu saman til þess að fá meiri gerjun hér á landi? Hluti af því sem fólk kallar eftir er að það þurfi fleiri sérfræðinga í ýmiss konar störf og rannsóknir og þróun. Það er einmitt í því, rannsóknum og þróun, sem við höfum tekið ákvörðun um að þar ætlum við að vera framúrskarandi. Lítið land eins og Ísland mun ekki geta verið framúrskarandi í öllum hlekkjum keðjunnar og við höfum markað þá stöðu undanfarin ár að við ætlum að vera sterk þar sem er m.a. ástæðan fyrir því að Tækniþróunarsjóður hefur stækkað mjög verulega undanfarin ár. En það er alveg rétt, þessi aðhaldskrafa er þar eins og alls staðar annars staðar. Hún er stefnumörkun ríkisstjórnar og hefur verið undanfarin ár. Ég sé svo sem ekkert athugavert við það að það sé jöfn aðhaldskrafa almennt á kerfið.

Við erum síðan með á þingmálaskrá svokallaðan þjóðarsjóð. Hugmyndin hefur verið að mögulega getum við notað hluta af því í nýsköpun. Það á eftir að útfæra það. Það er dæmi um nýtt verkefni sem skiptir öllu máli hvernig er útfært og framkvæmt en væri mögulega til þess gert að fjárfesta einmitt í nýsköpun sem er algjört lykilatriði, ekki bara fyrir fyrirtæki (Forseti hringir.) úti í bæ til að búa til verðmæti, heldur líka fyrir hið opinbera, að við séum að fjárfesta í fólki sem hefur góðar hugmyndir til að (Forseti hringir.) hjálpa okkur að leysa þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, t.d. í heilbrigðiskerfinu.