149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Í fjárlagafrumvarpinu koma fram aukin framlög til ferðaþjónustu um 200 milljónir, 9,5% hækkun. Það er mjög mikilvægt að ræða ákveðinn hlut í því samhengi sem er mikilvægi þolmarka í ferðaþjónustunni. Það liggur fyrir skýrsla sem var tilbúin snemma árs 2018 um þolmörk og aðgangsstýringu fyrir ferðaþjónustu. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga á áframhaldandi vinna að fara fram við greiningu þolmarka og nú á vegum Ferðamálastofu, færist sem sagt frá Stjórnstöð ferðamála til Ferðamálastofu. Mig langar að biðja hæstv. ferðamálaráðherra að skýra hvernig sú vinna á að fara fram og hverju stefnt er að.

Á könnu hæstv. ferðamálaráðherra eru líka markaðsstofur landshluta. Þær eru eins og allir vita mjög mikilvægar fyrir þróun ferðaþjónustunnar utan höfuðborgarinnar. Þetta er hluti af byggðastefnu okkar. Þær óska væntanlega allar eftir hærri framlögum í samningum við Ferðamálastofu. Það kemur fram í frumvarpinu að styðja skuli myndarlega við þær áfram og þá er spurningin hvernig það verður gert. Það mætti skýra þá ætlun, hvaða fjármunir fara í það úr hinum 200 millj. kr. potti og hvernig við getum aukið stuðning við þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni.