149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst aðeins um rannsóknir, gagnaöflun og þolmörkin. Það er vinna sem hingað til hefur verið unnin hér og þar, frekar tilviljanakennt, eftir því hvaðan peningar koma í ákveðin verkefni og annað slíkt. Þeir sem hafa unnið að rannsóknum undanfarin ár, undanfarna áratugi, hafa í rauninni alltaf gagnrýnt að stefnumótun vanti í því. Ég tek undir það.

Þegar menn ætluðu að fara í langtímastefnumótun árið 2015 kom í ljós að það var ekki hægt vegna þess að gögn vantaði. Stjórnstöð tók það svolítið til sín og hefur gert mjög vel í mælaborði ferðaþjónustunnar þar sem eru komin á einn stað mjög mörg gögn og er áfram unnið að því að fjölga þeim og þróa mælaborðið þannig að það verði aðalfyrirbæri gagna í ferðaþjónustu.

Ég hef verið að tala um litlu Hafró. Þá á ég við að við höfum sáð því fræi í Stjórnstöðinni. Nú er það fært inn í Ferðamálastofu þar sem það á að eiga heima, þar sem við setjum gagnaöflunina og bætum við fleiri gögnum og svo er það rannsóknahlutverkið. Hugmyndin er að nýta áfram krafta þeirra sem hafa unnið að rannsóknum en að það sé stefnumótun hjá stofnuninni. Að því koma líka hagsmunaaðilar og aðrir sem hafa eitthvað um málið að segja til að meta í hvaða rannsóknir þarf að fara.

Nú munu þau formlega bera þá ábyrgð 1. janúar samkvæmt lögum en vinnan er farin af stað. Það er búið að ráða öfluga manneskju sem mun halda utan um þetta og aðrir starfsmenn sem sinna því. Ég bind miklar vonir við það og held að við munum sjá þegar fram líða stundir hversu mikilvægt er að vera með almennileg gögn og rannsóknir í þessari atvinnugrein, rétt eins og við höfum í öðrum undirstöðuatvinnugreinum sem byggja á nýtingu takmarkaðra auðlinda að miklu leyti.

Varðandi markaðsstofurnar verð ég að fá að koma inn á það í seinna svari.