149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:47]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því auðvitað að verið sé að efla og styrkja þessa vinnu við þolmarkagreiningu og aðgangsstýringu. Það er mjög mikilvægt að flýta henni og ljúka þessari stefnumótun þannig að leiðbeiningar og reglur og annað slíkt séu nokkuð skýrar. Það er nú þegar verið að vinna við svona verkefni. Það er Silfra á Þingvöllum. Þar er kannski að sumu leyti verið að vinna ákveðna frumkvæðisvinnu sem gæti skipt máli í þessu sambandi.

Mig langar aðeins að koma inn á aðra spurningu til hæstv. ráðherra úr því að ég hef tíma, það er um smávirkjanir. Það á að skoða sérstaklega svokallaðar smávirkjanir, þ.e. virkjanir undir tíu megavatta afli. Ég vil meina að þær virkjanir, við skulum segja milli fimm og tíu megavött, geti haft umtalsverð umhverfisáhrif. Því er mjög mikilvægt að þar inni sé mat á umhverfisáhrifum slíkra virkjana sem eru núna undanþegnar því. Mig langar að heyra hvort hæstv. ráðherra er mér sammála um þetta þó að þetta komi ekki beinlínis við fjármálum ríkisins að svo stöddu.