149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst til að klára að svara varðandi markaðsstofurnar hef ég sagt að starf þeirra skiptir miklu máli. Það er ákveðinn lykill á milli ríkisins og t.d. sveitarfélaga og sömuleiðis fyrirtækjanna sem að markaðsstofunum standa. Það sem við höfum verið að skoða og er auðvitað alltaf tækifæri til að gera er að útdeila einfaldlega fleiri verkefnum til markaðsstofanna. Það skiptir þá máli að það séu rétt verkefni. Ég er viss um að hægt er að gera enn betur í því. Hin svokallaða DMP-vinna, áfangastaðaáætlanirnar, er auðvitað hjá markaðsstofunum og hefur gengið þokkalega, en það á eftir að klára það almennilega. Það þarf síðan að haldast í hendur við alla skipulagsvinnu sveitarfélaga o.s.frv. Samstarf við sveitarfélögin er líka eitthvað sem ég trúi að verði enn ríkara í framtíðinni. Það sem er pínulítið snúið varðandi markaðsstofurnar er að þær eru mjög mismunandi uppbyggðar. Það er kannski partur af því sem mun verða á komandi misserum, hvort við eigum einhvern veginn að reyna að samræma það, en það er alltaf áskorun vegna þess að þetta er síðan að sumu leyti auðvitað sjálfsprottið og maður vill heldur ekki taka eitthvað yfir sem er sjálfsprottið og virkar eins og það gerir. En samstarfið hefur gengið vel. Nú er búið að undirrita samninga við allar markaðsstofurnar.

Varðandi síðan álagsmatið og þolmörkin er það auðvitað mjög spennandi verkefni sem skiptir miklu máli að vinna vel. Við höfum verið að vinna með það innan stjórnstöðvarinnar, og svo auðvitað þessi skýrsla. Silfra er dæmi um það. Við erum alltaf að tala um að það vanti stýringu. Það er verið að taka alls konar skref innan þjóðgarða og annars staðar að stýringu. En við þurfum mögulega að fara að taka fyrir einhvern einn stærri stað og láta reyna á þetta allt saman, líka til að rekast á hindranir. Þá getum við kannski farið að huga að því hvernig við lögum það sem getur orðið fyrirmynd að því hvernig við gerum þetta annars staðar.

Varðandi smávirkjanirnar er ég þeirrar skoðunar að þær séu mikilvægar, þær geta hjálpað til, bæði fyrir kerfið og sem búbót fyrir bændur. En ég er alveg sammála því (Forseti hringir.) að hugmyndin er auðvitað að þetta séu smávirkjanir. (Forseti hringir.) Menn eru mjög viljandi að fara í 9,9 megavött og þá finnst mér ekkert óeðlilegt (Forseti hringir.) að menn velti því upp hvert markmið reglnanna er að þær séu undanþegnar öðrum strangari kröfum.