149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ein af aðgerðum ráðherra í nýsköpunarmálum er að einfalda regluverk og verkferla í þágu atvinnulífsins. Nú þykir mér vanta einhverjar nánari útskýringar á því í hverju þetta felst vegna þess að það er afskaplega mikilvægt eins og ég hef rakið hér í ræðum áður að starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi verði bætt. Það eru fjölmargar þrautir sem eru að þvælast fyrir þeim sem vilja fara út í atvinnustarfsemi. Á öllum stigum atvinnurekstrar eru tækifæri til þess að létta fyrirtækjum, stofnendum þeirra og starfsfólki róðurinn. En það hefur mjög lítið sést hingað til af raunverulegum tillögum og aðgerðum í þá átt. Það er því ánægjulegt að sjá þessa tilteknu aðgerð í tillögum hæstv. ráðherra en mér finnst vanta einhvers konar útskýringu á því hverju við megum búast við. Er einfaldlega verið að tala um reglugerðarbreytingar? Er verið að tala um lagafrumvörp eða hvað?

Í þessu samhengi er kannski rétt að minnast á að tækniþróunarstig fyrirtækja er almennt séð ekki mjög hátt á Íslandi. Það eru auðvitað til fyrirtæki sem eru komin mjög langt í tækniþróun, en þau fyrirtæki sem eru mjög nálægt grunnrannsóknum eru mjög mörg. Það hefur verið mikil þörf á því að gera starfsumhverfið auðveldara til þess að fleiri fyrirtæki komist lengra í vöruþróun og framleiðslu á verðmætari vörum. Það væri gaman að heyra hvað hæstv. ráðherra ætlar sér í þessu.