149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og ferðamála greinargóða yfirferð yfir verkefnin. Ég ætla að koma inn á tvö málefnasvið sem heyra undir ráðherra og eru á ábyrgðarsviði ráðherra. Það eru annars vegar nýsköpun og rannsóknir, sem við finnum í fjárlagafrumvarpi á bls. 234, og svo ferðaþjónustan, sem er á bls. 289 í frumvarpinu.

Spurningar mínar snúa að stefnumótun og auðvitað erum við alltaf hér með í huga í þessari umræðu bætta nýtingu og ráðstöfun fjármuna. Það hlýtur að vera lykilatriði í þessu. Með öflugri stefnumótun erum við alltaf að leitast við að bæta ráðstöfun og fá fram markvissari ráðstöfun fjármuna.

Við settum á fót Stjórnstöð ferðamála í ferðaþjónustunni og við vorum fyrir með Ferðamálastofu. Hæstv. ráðherra boðar að við munum efla starf Ferðamálastofu, sem er vel. Ég hygg að við höfum sett á fót Stjórnstöð ferðamála í og með til þess að ná betri yfirsýn yfir þetta mjög flókna og margþætta umhverfi þar sem margir aðilar og margar, ólíkar atvinnugreinar koma að því að byggja upp ferðaþjónustuna.

Kallað er eftir meiri greiningu og ekki síst hagrænum tölum til að við getum metið hagræn og efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í landinu. Hvernig stendur sú vinna og hvar liggur hún á milli Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála?