149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Stjórnstöð ferðamála var sett á fót 2015 og á að renna sitt skeið 2020. Ég hef lagt á það áherslu að hún geri það, að stjórnkerfið verði tilbúið til þess að taka við þeim verkefnum og vera búið að vinna vinnu sína, sem vantaði þegar stjórnstöðin var sett af stað. Þegar hún var sett á fót var ég aðstoðarmaður í öðru ráðuneyti og viðurkenni alveg að ég skildi ekki hugmyndina, en mér hefur fundist hún sanna það algjörlega hversu mikilvæg hún er. Þarna sitja þeir ráðherrar sem fara með mörg mál sem snúa beint að ferðaþjónustunni.

En það sem við erum að reyna að gera núna er einmitt að taka verkefnin sem sett voru af stað í stjórnstöðinni og færa þau þannig að þau fari á sinn lokastað í bili, alla vega þannig að stjórnstöðin geti hægt og bítandi trappað sig niður. Þess vegna settum við aukafjármuni í Ferðamálastofu þar sem við erum einfaldlega að færa peninga sem áður fóru í gegnum stjórnstöðina til þess að geta sinnt þessari gagnaöflun og rannsóknarvinnu. Það er algjört lykilatriði.

Við erum síðan líka að vinna álagsmat eða þolmarkavinnu innan stjórnstöðvarinnar þar sem við erum að reyna að meta álag á hverju sviði fyrir sig, umhverfi, efnahag og samfélagi. Komin eru drög að fyrsta áfanga. Nú hefjum við annan áfanga. Það má því segja að við séum núna búin að ákveða að við ætlum að hafa einhvern hámarkshraða. Næsta skref er að ákveða að sá hámarkshraði eigi að vera 50, 70, 90 kílómetrar, auðvitað mismunandi eftir svæðum.

Það er síðan grunnurinn að þeirri stefnumótun sem við förum í, sem er þá unnin með öðrum hætti en t.d. nýsköpunarstefnan vegna þess að þar ætlum við að nýta stjórnstöðina sem er samstarfsvettvangur til þess að vinna þá stefnu. Þá þarf auðvitað að vera komið ákveðið leiðarljós frá ríkisstjórn og hinu opinbera og stefnumótun þarf náttúrlega að passa fyrir það leiðarljós. Álagsmat er algjör grunnur (Forseti hringir.) að stefnumótunarvinnu. Þetta helst algjörlega í hendur.